Afmælisbörn 28. nóvember 2017

Janis Carol

Tvö afmælisbörn í tónlistargeiranum koma við sögu Glatkistunnar að þessum sinni:

Páll Jóhannesson einsöngvari og bóndi frá Þverá í Öxnadal er sextíu og sjö ára á þessum degi, hann nam söng á Ítalíu á sínum tíma og gaf út tvær einsöngsplötur á níunda áratug síðustu aldar þar sem hann naut m.a. aðstoðar Karlakórsins Geysis og Karlakórs Akureyrar.

Þá á söngkonan Janis Carol Walker (Carol Nielsson) sextíu og níu ára afmæli í dag. Janis var áberandi í íslensku tónlistarlífi um og upp úr 1970 þegar hún söng með hljómsveitum á borð við Mods og Töturum en áður hafði hún sungið með danshljómsveitum eins og Hljómsveit Guðjóns Pálssonar og Ó.B. kvartett. Janis hvarf síðan af landi brott og var nokkuð áberandi í breska söngleikjaheiminum um tíma en hefur mest alið manninn í Bandaríkjunum hin síðari ár. Janis hefur gefið út tvær tveggja laga plötur og eina breiðskífu, auk þess að syngja inn á nokkrar aðrar plötur.