Afmælisbörn 26. nóvember 2017

Þorgeir Rúnar Kjartansson

Afmælisbörn dagsins eru þrjú að þessu sinni:

Sveinbjörn B. Thorarensen (Hermigervill) er fjörutíu og þriggja ára gamall. Hermigervill hefur gefið út nokkrar sóló raftónlistarplötur en hann hefur einkum sérhæft sig í vinna úr eldri tónlist, t.d. gömlum íslenskum dægurlögum í nýjum búningi. Hann hefur unnið með ýmsum tónlistarmönnum hér heima s.s. Retro Stefson, Þórunni Antoníu og Berndsen. Hermigervill nam í Hollandi en hefur búið víða um Evrópu.

Guðmundur R. Einarsson trommuleikari hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann lést 2014. Guðmundur (f. 1925) sem einnig lék á básúnu, lék í hljómsveit bróður síns, Björns R. Einarssonar en einnig í sveitum eins og GÁG-tríóinu, Neo tríóinu, Dixielandhljómsveit Íslands, Hljómsveit Gunnars Ormslev, Sextett Ólafs Gauks, Hljómsveit Félags harmonikkuunnenda, Sunnan sex og Tríó Ólafs Stephensen, auk Sinfóníuhljómsveitar Íslands, svo nokkrar séu hér nefndar.

Þá þefði Þorgeir Rúnar Kjartansson tónlistarmaður og sagnfræðingur átt afmæli í dag. Þorgeir (f. 1955) lék á saxófón með hinni goðsagnakenndu hljómsveit Júpíters en hann hafði einnig verið í Kennarablandi MS, Skrautreið Hemúlanna og Halló og heilaslettunum sem var ein af fyrstu pönksveitunum. Þorgeir lést 1998 aðeins fjörutíu og þriggja ára.