Afmælisbörn 27. nóvember 2021

Friðrik Bjarnason

Afmælisbörn dagsins í Glatkistunni eru sex talsins í dag:

Björg Þórhallsdóttir sópran söngkona frá Akureyri er fimmtíu og sjö ára gömul í dag. Hún hefur sent frá sér þrjár plötur, þar af eina jólaplötu. Björg var bæjarlistamaður Akureyrar árið 2007.

Klara Ósk Elíasdóttir, Klara í Nylon, er þrjátíu og sex ára gömul á þessum degi, þessi söngkona hefur gert garðinn frægan í stúlknasveitinni Nylon (síðar The Charlies). Hún hafði áður sungið á plötu Heimis Sindrasonar, sungið á plötu gegn reykingum, tekið þátt í uppfærslum söngleikja í Verzlunarskóla Íslands og sungið í Samfés.

Edda Heiðrún Backman söng- og leikkona (1957-2016) átti einnig afmæli á þessum degi. Tónlistarferill Eddu snerist einkum um leikhúsið og kvikmyndir en hún sendi einnig frá sér plötur með söng sínum, sem oftar en ekki var fyrir börn, þar á meðal er platan Fagur fiskur í sjó, sem hún vann ásamt tónskáldinu Atla Heimi Sveinssyni.

Hafnfirðingurinn Friðrik Bjarnason organisti og tónskáld (1880-1962) hefði einnig átt afmæli, hann stofnaði fyrsta kvennakór landsins, stofnaði einnig karlakórinn Þresti og stjórnaði honum lengi. Friðrik var frumkvöðull á ýmsum sviðum tónlistar hér á landi og er talinn hafa komið með do-re-mi kerfið til Íslands.

Ásgeir Bragason trommuleikari hefði átt afmæli í dag en hann lést langt fyrir aldur fram árið 2015. Ásgeir vakti mikla athygli í pönksenunni upp úr 1980 með hljómsveitinni Purrki Pillnikk sem var öflug í tónleikhaldi og plötuútgáfu, en síðar var hann um lengri og skemmri tíma í sveitum eins og Puppets, Deild 1 og Egó. Hann var fæddur árið 1959.

Erla Traustadóttir söngkona (f. 1942) átti þennan afmælisdag einnig, hún söng með hljómsveitum á dansstöðum borgarinnar einkum á sjöunda áratugnum, s.s. Hljómsveit Karls Lilliendahl, Sextett Ólafs Gauks, Tríói Nausts, Goðgá og Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar. Erla lést árið 2001.

Vissir þú að lagið Hani, krummi, hundur, svín er í rauninni tvö þjóðlög þar sem „Verður ertu víst að fá…“ kaflinn er annað lag?