Edda Heiðrún Backman (1957-2016)

Edda Heiðrún Backman

Edda Heiðrún Backman

Söng- og leikkonan Edda Heiðrún Backman er flestum kunn fyrir söng sinn í söngleikjum og á jóla- og barnaplötum en síðustu ár ævinnar má segja að myndlistakonan Edda Heiðrún hafi tekið yfir eftir að hún greindist með hinn illvíga MND sjúkdóm.

Edda Heiðrún (Halldórsdóttir) Backman fæddist 1957 á Akranesi en fluttist fimm ára gömul til Reykjavíkur hvar hún bjó síðan. Hún útskrifaðist úr Leiklistaskólanum vorið 1983 og fljótlega fór að bera á sönghæfileikum þessarar ungu leikkonu. Hún lærði ennfremur söng samhliða öðrum störfum.

Fyrsta atvinnuhlutverk Eddu Heiðrúnar á sviði var í Hart í bak útskriftarárið 1983 en fyrsta alvöru sönghlutverk hennar var í Litlu hryllingsbúðinni 1985 þar sem hún lék eitt aðalhlutverkið og þegar tónlistin úr söngleiknum kom út á plötu varð lagið Þar sem allt grær, feikivinsælt í hennar flutningi. Og eftir það má segja að söngurinn hafi verið samofinn leiklistarferli hennar. Í kjölfar velgengni Litlu hryllingsbúðarinnar lék Edda Heiðrún og söng í einu allra vinsælasta áramótaskaupi Ríkissjónvarpsins frá upphafi og þegar hún söng lagið Önnur sjónarmið í kvikmyndinni Eins og skepnan deyr, þar sem hún lék annað aðalhlutverkið, skipaði hún sér meðal fremstu söngkvenna landsins. Og fleiri leikrit og söngleikir festu hana í sessi s.s. Kötturinn sem fer sínar eigin leiðir (1986), Honk! Ljóti andarunginn (2002), Kristnihald undir jökli (2001), Þrek og tár (1995) o.fl. en tónlistin úr þessum sýningum (og fjölmörgum öðrum) komu út á plötum og fékk Edda Heiðrún iðulega ágæta dóma fyrir söng sinn (og leik). Hún hlaut einnig fjölmargar viðurkenningar fyrir leik sinn í gegnum tíðina.

Edda Heiðrún söng þó á öðrum vígstöðvum en í leikhúsi og gerði hún það gott í tónlist fyrir börn, mörg lög hafa notið vinsælda í flutningi hennar eins og Maístjarnan, Sjö litlar mýs, Pálína með prikið, Hóký póký, Óskasteinar og Kvæðið um fuglana (Snert hörpu mína) svo fáein dæmi séu nefnd. Hún gaf einnig út jólatónlist en útgáfa hennar af laginu Inní strompnum hefur orðið sígild og heyrist um hverja jólahátíð á útvarpsstöðvunum.

Þegar Edda Heiðrún greindist með MND lömunarsjúkdóminn árið 2003 þurfti hún að söðla um og breyta lífi sínu svo um munaði. Hún hætti að leika og sneri sér að leikstjórn um tíma en þegar sjúkdómurinn fór að há henni svo að hún varð óstarfhæf gafst hún ekki upp en sneri sér að öðru. Hún haslaði sér völl á öðru sviði listarinnar og hóf að mála vatnslitamyndir með tungunni sem vakti mikla athygli, og hún varð um leið öflug í forsvari fyrir bættu aðgengi fatlaðra og öðrum tengdum málum.

Svo fór þó að lokum að veikindi Eddu Heiðrúnar lögðu hana að velli en hún lést haustið 2016.

Þrjár sólóplötur hafa komið út með söng Eddu Heiðrúnar. Árið 1990 kom platan Barnaborg út, hún seldist vel og fékk góðar viðtökur, t.a.m. mjög góða dóma í DV og Þjóðviljanum. Ári síðar kom út jólaplatan Barnajól þar sem einmitt meðal annarra lagið Inní strompnum er að finna. Tíu árum eftir það (2001) kom platan út platan Fagur fiskur í sjó þar sem Edda Heiðrún syngur söngleikja- og leikskólalög Atla Heimis Sveinssonar tónskálds, en hún var einkum ætluð börnum. Platan hlaut frábæra gagnrýni í Morgunblaðinu og fékk reyndar tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem plata ársins.

Söngur Eddu Heiðrúnar hefur ennfremur komið út á fjölmörgum safnplötum í gegnum tíðina eins og títt er um vinsæla söngvara, lög með henni má t.d. heyra á plötum eins og Rómantík (1993), Pottþét ást (1997), Nokkur bestu barnalögin 1 og 2 (1997 og 98), Stelpurnar okkar (1998), Á hátíðarvegum (2000), Pottþétt barnajól (2001), Sumarplata pylsuparsins (2002), Next: Jóladiskurinn 2004 (2004) og 100 íslensk jólalög fyrir alla fjölskylduna (2006), auk fjölmargra annarra.

Efni á plötum