Erla Traustadóttir (1942-2001)

Erla Traustadóttir 1984

Erla Traustadóttir

Erla Traustadóttir söngkona söng með ýmsum hljómsveitum, einkum á sjöunda áratug liðinnar aldar, á annars stuttum söngferli.

Erla (Steinþóra Erla Hofland Traustadóttir) fæddist 1942 og vakti athygli fyrst fyrir söng sinn með Hljómsveit Karls Lilliendahl veturinn 1965-66.
Vorið 1966 keppti hún í Fegurðarsamkeppni Íslands, hafnaði þar í þriðja sæti og tók þátt í kjölfarið í Miss Universe um sumarið.

Hún lagði þó sönginn fyrir sig um tíma, söng með Sextett Ólafs Gauks, Örnum og Hljómsveit Magnúsar Péturssonar áður en hún hóf að syngja á héraðsmótum með Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar, en þau voru eins konar undanfari Sumargleðiskemmtananna.

Það má segja að söngferli Erlu hafi lokið um haustið 1968 að loknum héraðsmótunum, þegar hún sneri sér að fyrirsætustörfum og öðrum tengdum störfum í kjölfar fegurðarsamkeppninnar. Hún fékkst þó eitthvað við kórsöng, var í Dómkirkjukórnum og Pólýfónkórnum, auk þess að syngja einhver óperettuhlutverk við Þjóðleikhúsið en hún hafði lagt stund á söngnám um tíma, m.a. hjá Maríu Markan.

Hún söng lítillega opinberlega um og eftir 1980, m.a. með Tríói Naustsins 1979 og hljómsveitinni Goðgá 1985 auk þess að koma fram á söngskemmtun á Broadway 1984.

Erla bjó lengst af erlendis seinni ár, m.a. í Bandaríkjunum og á Spáni þar sem hún lést eftir veikindi síðla árs 2001.