Afmælisbörn 27. nóvember 2014

Erla Traustadóttir

Erla Traustadóttir

Afmælisbörn dagsins eru þessi:

Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona á stórafmæli en hún er fimmtug. Björg nam söng á Akureyri og fór síðan í framhaldsnám til Bretlands þar sem hún lauk námi 1999. Hún hefur gefið út þrjár sólóplötur (þar af eina jólaplötu), sungið á plötum annarra listamanna og á tónleikum og óperusýningum hér heima sem erlendis en hún bjó um árabil á Bretlandseyjum.

Klara Ósk Elíasdóttir, Klara í Nylon er 29 ára, þessi söngkona hefur gert garðinn frægan í stúlknasveitinni Nylon (síðar The Charlies). Hún hafði áður sungið á plötu Heimis Sindrasonar, sungið á plötu gegn reykingum, tekið þátt í uppfærslum söngleikja í Verzlunarskóla Íslands og sungið í Samfés.

Hafnfirðingurinn Friðrik Bjarnason organisti og tónskáld (1880-1962) hefði einnig átt afmæli, hann stofnaði fyrsta kvennakór landsins, stofnaði einnig karlakórinn Þresti og stjórnaði honum lengi. Friðrik var frumkvöðull á ýmsum sviðum tónlistar hér á landi og er talinn hafa komið með do-re-mi kerfið til Íslands.

Erla Traustadóttir söngkona (f. 1942) átti þennan afmælisdag einnig, hún söng með hljómsveitum á dansstöðum borgarinnar á sjöunda áratugnum, s.s. Hljómsveit Karls Lilliendahl, Sextett Ólafs Gauks og Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar. Erla lést 2001.