Afmælisbörn 27. nóvember 2015

Edda Heiðrún Backman2

Edda Heiðrún Backman

Afmælisbörn dagsins í Glatkistunni eru fimm talsins í dag, flest þeirra eru söngkonur:

Edda Heiðrún Backman söng- og leikkona er fimmtíu og átta ára gömul í dag. Tónlistarferill Eddu hefur einkum snúist um leikhúsið og kvikmyndir en hún hefur einnig sent frá sér plötur með söng sínum, sem oftar en ekki hafa verið fyrir börn, þar á meðal er platan Fagur fiskur í sjó, sem hún vann ásamt tónskáldinu Atla Heimi Sveinssyni. Síðasta áratuginn hefur Edda Heiðrún barist við MND sjúkdóminn.

Björg Þórhallsdóttir sópran söngkona frá Akureyri er fimmtíu og eins árs gömul í dag. Hún hefur sent frá sér þrjár plötur, þar af eina jólaplötu. Björg var bæjarlistamaður Akureyrar árið 2007.

Klara Ósk Elíasdóttir, Klara í Nylon, er þrítug á þessum degi, þessi söngkona hefur gert garðinn frægan í stúlknasveitinni Nylon (síðar The Charlies). Hún hafði áður sungið á plötu Heimis Sindrasonar, sungið á plötu gegn reykingum, tekið þátt í uppfærslum söngleikja í Verzlunarskóla Íslands og sungið í Samfés.

Hafnfirðingurinn Friðrik Bjarnason organisti og tónskáld (1880-1962) hefði einnig átt afmæli, hann stofnaði fyrsta kvennakór landsins, stofnaði einnig karlakórinn Þresti og stjórnaði honum lengi. Friðrik var frumkvöðull á ýmsum sviðum tónlistar hér á landi og er talinn hafa komið með do-re-mi kerfið til Íslands.

Erla Traustadóttir söngkona (f. 1942) átti þennan afmælisdag einnig, hún söng með hljómsveitum á dansstöðum borgarinnar á sjöunda áratugnum, s.s. Hljómsveit Karls Lilliendahl, Sextett Ólafs Gauks og Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar. Erla lést 2001.