Afmælisbörn 26. nóvember 2015

Guðmundur R. Einarsson

Guðmundur R. Einarsson

Afmælisbörn dagsins eru tvö að þessu sinni:

Sveinbjörn B. Thorarensen (Hermigervill) er þrjátíu og eins árs gamall. Hermigervill hefur gefið út nokkrar sóló raftónlistarplötur en hann hefur einkum sérhæft sig í vinna úr eldri tónlist, t.d. gömlum íslenskum dægurlögum í nýjum búningi. Hann hefur unnið með ýmsum tónlistarmönnum hér heima s.s. Retro Stefson, Þórunni Antoníu og Berndsen. Hermigervill nam í Hollandi en hefur búið víða um Evrópu.

Guðmundur R. Einarsson trommuleikari hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann lést 2014. Guðmundur (f. 1925) sem einnig lék á básúnu, lék í hljómsveit bróður síns, Björns R. Einarssonar en einnig í sveitum eins og GÁG-tríóinu, Neo tríóinu, Dixielandhljómsveit Íslands, Hljómsveit Gunnars Ormslev, Sextett Ólafs Gauks, Hljómsveit Félags harmonikkuunnenda, Sunnan sex og Tríó Ólafs Stephensen, auk Sinfóníuhljómsveitar Íslands, svo nokkrar séu hér nefndar.