Erla Þorsteins (1933-2022)

Erla Þorsteins

Erla Þorsteins

Erla Þorsteins (Erla Jóna Þorsteinsdóttir) var ein ástsælasta söngkona 20. aldarinnar og var oft kölluð stúlkan með lævirkjaröddina, söngferill hennar spannaði hins vegar aðeins fimm ár en hún hætti að syngja 26 ára gömul til að sinna eiginmanni og fjölskyldu. Þrátt fyrir það náði hún að gefa út fjölmargar smáskífur á þeim tíma og á þeim er að finna fjöldann allan af lögum sem hún gerði ódauðleg.

Erla fæddist á Sauðárkróki 1933 og hóf snemma að syngja og leika á gítar á heimaslóðum en gítarinn hafði hún fengið í fermingargjöf. Átján ára fluttist hún til Danmerkur til að starfa við þjónustu en söngferill hennar hófst mjög snögglega og fyrir alvöru er henni bauðst að syngja og leika á gítar í dönskum útvarpsþætti snemma árs 1954, það voru lögin Til eru fræ og Kvöldið var heiðskírt og hljótt. Í beinu framhaldi opnuðust henni fjölmargar gáttir og tækifæri til að koma sér á framfæri, og í kjölfarið einnig að syngja inn á plötur.

Sú fyrsta var tveggja laga plata með dönsku lögunum Gud ved hvem der kysser dig nu (Kvöldið var heiðskírt og hljótt) og Hvordan en sú plata vakti ekki mikla athygli í Danmörku. Tvær aðrar plötur komu í kjölfarið þetta ár (1954) og gengu þær betur en á þeim söng hún á íslensku, þær plötur komu út fyrir tilstilli Fálkans eins og allar hennar plötur æ síðan. Plöturnar voru teknar upp í Kaupmannahöfn, hljómsveit Jörns Grauengård lék undir á þessum plötum en Erla átti eftir að starfa með honum alla tíð. Einnig bauðst henni að syngja inn á plötur við eigin undirleik en af því varð þó aldrei.

Erla Þorsteins

Erla naut strax mikilla vinsælda í Danmörku og varð eftirsótt þar og barst hróður hennar þaðan til Íslands, vinsælust varð hún þó alltaf í Danmörku enda starfaði hún þar mestan sinn ferill þrátt fyrir að hún kæmi einstaka sinnum til föðurlandsins til að skemmta. Erla bjó síðan alla sína tíð í Danmörku og átti danskan unnusta sem hún síðar giftist.

Plöturnar þrjár komu út sem fyrr segir árið 1954 en næsta ár, 1955 komu engar plötur út með Erlu þrátt fyrir að þær fyrrnefndu hefðu selst upp fyrir jólin 1954, ástæðan var fyrst og fremst sú að Erla hafði dvalist hér heima allt sumarið, gift sig og eignast sitt fyrsta barn.

1956 komu hins vegar út þrjár plötur með henni og var sami háttur hafður á og áður, íslensk lög við undirleik sveitar Jörns Grauengård en Fálkinn gaf út. Lögin voru tekin upp snemma árs og seldust plöturnar allar vel, Erla var þarna orðin ein vinsælasta söngkona landsins og varð ein platnanna, með lögunum Heimþrá og Hljóðaklettar, söluhæsta plata ársins á Íslandi.

Næsta ár, 1957 komu út fimm plötur þar af ein sungin á dönsku, hugsuð fyrir Skandinavíumarkaðinn. Hinar voru allar á íslensku en plöturnar voru teknar í tveimur upptökulotum síðla árs 1956 og í byrjun þess næsta.

Eins og áður nutu lög Erlu mikilla vinsælda, einkum Draumur fangans, Tvö ein í tangó og Vagg og velta en síðast nefnda lagið olli miklu fjaðrafoki á Íslandi og var bannað í Ríkisútvarpinu vegna textans en í honum þótti Loftur Guðmundsson textahöfundur sýna þjóðskáldunum Jónasi Hallgrímssyni og Kristjáni fjallaskáldi vanvirðingu, þar lék Loftur sér að þekktum hendingum úr ljóðum skáldanna og sýndist sitt hverjum. Sumum þótti ekkert athugavert við textann á meðan aðrir réðu sér varla fyrir reiði. Deilur þessar urðu þó eingöngu til að auglýsa lögin því allir vildu auðvitað eiga plötuna sem var bönnuð í útvarpinu, hún seldist þar með upp.

Margir hafa viljað skilgreina Vagg og veltu sem fyrsta íslenska rokklagið en aðrir eru á því að lag Skapta Ólafssonar, Syngjum dátt og dönsum, eigi að telja sem fyrsta rokkslagarann en það kom út um svipað leyti.

Þetta ár kom Erla til Íslands og söng um sumarið og haustið með hljómsveitum Kristins Vilhelmssonar og Gunnars Ormslev ásamt Hauki Morthens víða um land, en þetta var í síðasta skipti sem hún söng á Íslandi.

1958 hélt Erla áfram að gefa út plötur með sama hætti og áður og þetta árið komu út átta plötur þar sem hún ýmist söng ein eða með Hauki Morthens, þar á meðal má finna hið klassíska Þrek og tár sem hefur verið aðalsmerki þeirra Erlu og Hauks en einnig má þarna heyra lög eins og Vaki vaki vinur minn, Hvers vegna og Litli tónlistarmaðurinn sem einnig hafa fyrir löngu skipað sér sess sem sígildar dægurlagaflugur. Einnig komu út einhverjar endurútgáfur af lögum Erlu þetta árið (og árið eftir) þar sem hún syngur ásamt Hauki Morthens og Ingibjörgu Smith.

1959 komu þrjár plötur með efni frá Erlu einni og þar af var aðeins ein með nýju efni en það var fjögurra laga plata þar sem m.a. mátti finna Hreðavatnsvalsinn og Kata rokkar en þau lög þekkja flestir enn í dag.

Þarna var hins vegar komið að tímamótum hjá Erlu þar sem hún hafði þegar hér var komið sögu, ákveðið að helga sig fjölskyldulífinu og snúa baki við tónlistina. Þetta kom nokkuð á óvart enda höfðu plötur hennar ætíð verið meðal þeirra söluhæstu.

Þrátt fyrir að afkasta miklu spannar ferill Erlu ekki nema rétt um hálfan áratug, sá tími dugði henni þó vel til að gera hana af einni ástsælustu söngkonu landsins og víst er að síðari tíma kynslóðir þekkja tónlist hennar enn í dag, og hafa margir tekið lög hennar til endurvinnslu, má þar t.d. nefna Björk og Tríó Guðmundar Ingólfssonar á plötunni Gling gló.

Tvöföld safnplata, Stúlkan með lævirkjaröddina, kom út árið 2000 og er á henni að finna flest af lögum Erlu. Lög hennar hafa ennfremur ratað inn á ýmsar safnplötur í seinni tíð, s.s. Stelpurnar okkar, Óskastundin 4, Óskalögin 2, Aftur til fortíðar, Svona var… seríunnar, Bestu lög 6. áratugarins o.fl.

Erla Þorsteins lést í Danmörku haustið 2022, á nítugasta aldursári.

Efni á plötum