Fritz Weisshappel (1908-64)

Fritz Weisshappel við píanóið

Austurríkismaðurinn Fritz Weisshappel var einn af fjölmörgum erlendum tónlistarmönnum sem komu til Íslands og lífguðu upp á annars fremur fábrotið tónlistarlíf landsins á fyrri hluta síðustu aldar. Hann varð kunnur píanóundirleikari einsöngvara og kóra hér á landi og kom við sögu á ógrynni útgefinna platna áratugina á eftir.

Friedrich Carl Johanna Weisshappel (Fritz Weisshappel) fæddist í Vín í Austurríki sumarið 1908 og hóf tónlistarnám ungur að aldri en báðir foreldrar hans voru hámenntað tónlistarfólk.

Hann var aðeins nítján ára gamall þegar honum gafst kostur á að fara til Íslands ásamt fleiri hljóðfæraleikurum til að leika tónlist fyrir matar- og dansleikjagesti á Hótel Íslandi (sem brann til kaldra kola snemma árs 1944). Að öllum líkindum var um að ræða strengjakvartett en Weisshappel var upphaflega sellóleikari og lék sem slíkur á hótelinu, verkefnið var auðvitað skammtímaverkefni og ekkert benti til annars en að hann hefði hér skamma viðveru.

Fritz Weisshappel

Það fór þó svo að Fritz Weisshappel ílengdist hér á landi, kynntist íslenskri stúlku sem hann síðan kvæntist og það varð til þess að hér bjó hann til æviloka. Hann varð þó mun þekktari sem píanóleikari heldur en nokkurn tímann sellóleikari því hann varð með tímanum alvinsælasti undirleikari einsöngvara og kóra um áratuga skeið, lék á tónleikum, í útvarpssal og á hljómplötum með söngvurum eins og Maríu Markan, Stefáni Íslandi, Einari Kristjánssyni, Guðmundi Jónssyni, Guðrúnu Á. Símonar og kórum eins og Karlakór Reykjavíkur en með þeim kór lék hann inn á fjölda platna og síðast en ekki síst tónleikum, m.a. í sex utanferðum kórsins. Plöturnar sem hann lék inn á skipta tugum ef ekki hundruðum.

Fritz Weisshappel starfaði í áratugi fyrir Ríkisútvarpið, fyrst sem píanóleikari við ýmis tækifæri en sem fastur starfsmaður frá því í ársbyrjun 1939, frá 1962 gerðist hann svo framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands þegar Ríkisútvarpið tók yfir starfsemi hennar. Hann vann einnig eitthvað að félagsmálum tónlistarmanna, var t.a.m. um tíma í stjórn FÍH (Félags íslenskra hljómlistarmanna).

Fritz Weisshappel lést í byrjun árs 1964 aðeins fimmtíu og fimm ára gamall en hann hafði þá átt í veikindum um tíma. Nafn hans er enn þekkt þeim sem muna eftir „síðasta lagi fyrir fréttir“ þar sem hann var oft undirleikari.