Fríða sársauki (1990-92)

Hljómsveitin Fríða sársauki starfaði um ríflega tveggja ára skeið í byrjun tíunda áratugarins og vakti nokkra athygli fyrir frumsamið efni, plata kom þó aldrei út með sveitinni þótt hún væri í undirbúningi.

Sveitin var stofnuð haustið 1990 en kom í raun ekki fram á sjónarsviðið fyrr en vorið 1991 þegar hún hélt sína fyrstu tónleika. Hún var nokkuð fjölskipuð til að byrja með en hún hafði þá líklega á að skipa átta meðlimum, þeir voru Andri Örn Clausen söngvari, Páll Ólafsson gítarleikari, Guðmundur Höskuldsson gítarleikari, Eðvarð Vilhjálmsson trommuleikari og Friðrik Sturluson bassaleikari en auk þess komu söngkonurnar Hanna Dóra Sturludóttir og Kristjana Stefánsdóttir fram með sveitinni ásamt hljómborðsleikaranum Aðalheiði Þorsteinsdóttur. Ekki er alveg ljóst hvort þær þrjár voru fastir meðlimir sveitarinnar. Vignir Þór Stefánsson hljómborðsleikari kom síðar inn í sveitina í stað Aðalheiðar.

Tildrög um stofnun sveitarinnar munu hafa verið þau að Friðrik Sturluson sem einnig var bassaleikari Sálarinnar hans Jóns míns fannst hann ekki koma sínu efni nægilega að í þeirri sveit og því hafi hann stofnað Fríðu sársauka en sveitin lagði mesta áherslu á frumsamið efni og fréttir þess efnis að hún væri á leið í hljóðver birtust vorið 1992 – skömmu áður en hún lagði upp laupana, ekki liggur þó fyrir hvort sveitin tók upp einhver lög. Hins vegar höfðu tónleikar með sveitinni á Púlsinum verið hljóðritaðir og þrjú lög frá þeim tónleikum komu út á safnplötunni Lagasafnið 5, árið 1996.