Fríður Sigurðardóttir (1944-2000)

Fríður Sigurðardóttir

Fríður Sigurðardóttir var sópran söngkona  sem lét drauma um söngnám sitt rætast komin á miðjan aldur, hún gaf einnig út plötu í samstarfi við aðra söngkonu.

Fríður Sigurðardóttir fæddist vorið 1944 í Dölunum en fluttist ung til Reykjavíkur þar sem hún bjó sína ævi eftir það. Ekki liggja fyrir upplýsingar um söng- eða tónlistaruppeldi hennar en hún var líklega um fertugt þegar hún hóf söngnám hjá Sigurði Demetz í Nýja söngskólanum og lauk þaðan burtfararprófi 1992, komin fast að fimmtugu. Hún hafði þá verið í nokkrum kórum, Skagfirsku söngsveitinni sem hún söng lengst í, Kór Árbæjarkirkju, Söngfélaginu Drangey og Breiðfirðingakórnum en hún var einn af stofnendum síðast nefnda kórsins. Fríður söng jafnframt einsöng með flestum kóranna á tónleikum, einkum Skagfirsku söngsveitinni, og einsöng hennar má heyra á plötu kórsins, Ljómar heimur, frá árinu 1990.

Samhliða söngnámi sínu hóf Fríður samstarf sitt við aðra söngkonu, Höllu Soffíu Jónasdóttur en þær áttu eftir að syngja mikið saman á tónleikum víðs vegar um land, bæði einsöng og tvísöng en þær stöllur gáfu svo út plötuna Ætti ég hörpu, árið 1994. Þar lék Kári Gestsson með þeim á píanó en platan hafði að geyma íslensk og erlend einsöngs- og tvísöngslög úr ýmsum áttum. Hún hlaut ágæta dóma hjá gagnrýnanda Morgunblaðsins.

Fríður lést síðsumars árið 2000 aðeins fimmtíu og sex ára gömul en hún hafði þá átt við veikindi að stríða um nokkurra ára skeið.

Efni á plötum