Afmælisbörn 15. ágúst 2021

Baldur Ragnarsson

Þrjú tónlistartengd afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar á þessum degi:

Þingeyingurinn Baldur Ragnarsson tónlistarmaður og áhugaleikari er þrjátíu og sjö ára gamall í dag. Þótt flestir tengi Baldur við gítarleik og söng í  hljómsveitinni Skálmöld hefur hann komið við í miklum fjölda sveita af ýmsu tagi, sem vakið hafa athygli með plötum sínum. Þar má nefna Ljótu hálfvitana, Morðingjana og Innvortis en einnig minna þekkt bönd eins og Bófa og Dætrasyni en hann spilar á hin ólíklegustu og ólíkustu hljóðfæri í þessum sveitum.

Þá er Ómar Stefánsson myndlistamaður sextíu og eins árs gamall í dag en hann kom nokkuð við sögu íslensks tónlistarlífs á sínum tíma, á námsárum sínum við nýlistadeild MHÍ var hann trommuleikari hinnar alræmdu sveitar Bruna BB og kom reyndar einnig við sögu á kassettu sem nemendur nýlistadeildarinnar gaf út á sínum tíma, þar fyrir utan var hann einn meðlima gjörningasveitarinnar Inferno 5.

Að síðustu er hér nefndur Guðmundur Kristjánsson tenór söngvari frá Búðardal (fæddur 1901) sem bjó reyndar mestan hluta ævi sinnar erlendis, lengst af í Bandaríkjunum þar sem hann kenndi einnig söng og stjórnaði kórum Íslendinga. Ein 78 snúninga plata kom út með Guðmundi en hann lést 1986.

Vissir þú að hljómsveitin Pops lék undir með Flosa Ólafssyni í laginu Það er svo geggjað að geta hneggjað?