Guðmundur Kristjánsson (1901-86)

Guðmundur Kristjánsson

Lítið hefur verið ritað um tenórsöngvarann Guðmund Kristjánsson sem flutti ungur til útlanda til að mennta sig í söng og starfaði svo lungann úr ævinni vestur í Bandaríkjunum. Ein tveggja laga plata kom út með honum hér á landi en ekki liggja fyrir upplýsingar um útgáfusögu erlendis.

Guðmundur Jónasson Kristjánsson fæddist í Búðardal árið 1901 en fluttist ungur með fjölskyldu sinni í Borgarnes. Hugur hans mun hafa legið til söngs og þegar hann fékk fjárstyrk til þess nítján ára gamall fór hann til Þýskalands þar sem hann nam söng í Dresden um fimm ára skeið og síðan í Mílanó á Ítalíu í þrjú ár. Guðmundur kom eitthvað heim í fríum sínum og hélt hér m.a. tónleika hér heima sumarið 1927, hann var tenór, þótti hafa fágaða söngrödd og átti auðvelt með að túlka ljóðrænan söng.

Eftir söngnám var hann ráðinn til þýska óperuhópsins German grand opera company, sem fór í stóra tónleikaferð vestur til Bandaríkjanna á fyrri hluta árs 1930 en Guðmundur var eini söngvarinn í þessum hundrað og fimmtíu manna hópi sem ekki var Þjóðverji, hópurinn söng m.a. eitthvað í Íslendingabyggðum vestra en eftir þessa stóru reisu kom hann heim til Íslands um sumarið og hélt hér nokkra tónleika í Gamla bíói ásamt píanóleikaranum Emil Thoroddsen. Þetta sama sumar voru hér á landi upptökumenn á vegum Columbia sem tóku upp fjöldann allan af plötum í Bárunni í tilefni af Alþingishátíðinni sem þá var haldin um sumarið með pomp og prakt. Guðmundur var einn þeirra listamanna sem söng þar inn á plötu en það voru tvö lög Heimir / Huldumál, sem kom síðan út um haustið á vegum Fálkans ásamt öðrum plötum úr þessari upptökutörn, Emil Thoroddsen lék undir með honum á upptökunum.

Haustið 1930 fór Guðmundur vestur um haf á nýjan leik en hann hafði þá kynnst bandarískri stúlku og hugðist setjast að í Ameríku, reyndar fór svo að hann kom aldrei aftur til Íslands. Hann hóf að búa og starfa í Chicago, kenndi söng við Chicago piano college og stjórnaði reyndar um tíma blönduðum íslenskum kór á svæðinu. Hann hélt stundum einsöngstónleika á þessum árum og fréttir þess eðlis birtust iðulega hér heima framan af en fækkaði síðan með tímanum, einnig söng hann eitthvað við óperusýningar af því er virðist við nokkuð jákvæðar undirtektir þarlendra. Á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar fór hann víða um og skemmti hermönnum á herstöðvum Bandaríkjamanna við Kyrrahafið og eftir stríð bjó hann og starfaði í Greensboro í Norður-Karólínu fylki um tíma áður en þau hjónin fluttust til New York en þar bjó Guðmundur til dauðadags haustið 1986, þá orðinn áttatíu og fimm ára gamall.

Efni á plötum