Sigríður Níelsdóttir (1930-2011)

Sigríður Níelsdóttir

Sigríður Níelsdóttir var óþekkt nafn með öllu í íslenskri tónlist allt þar til hún hóf að senda frá sér frumsamið efni á ótal geisladiskum í upphafi nýrrar aldar, þá komin á áttræðis aldur. Þetta uppátæki hennar vakti mikla athygli og var afkastageta hennar með miklum ólíkindum en alls komu út á sjö ára tímabili yfir sextíu plötur með tónlist hennar með hátt í sjö hundruð lögum, og varð þetta m.a. til þess að heimildamynd var gerð um hana – sem einnig vakti verðskuldaða athygli.

Sigríður María Níelsdóttir var fædd í Danmörku árið 1930 og var reyndar dönsk, hún hét fullu nafni Sigrid Maria Elisabeth Nielsen en tók upp íslenka nafn sitt er hún flutti hingað til Íslands árið 1949. Litlar upplýsingar er að finna um æviferil hennar, þó liggur fyrir að hún ólst upp við tónlist og hún hafði eitthvað lært á píanó á yngri árum en byrjaði þó líklega ekki að semja tónlist sjálf fyrr en hún var komin fram á miðjan aldur.

Sigríður bjó lengst af austur á fjörðum, líklega bæði á Eskifirði, Reyðarfirði, Mjóafirði og jafnvel víðar, og sinnti þar einhvers konar kristilegu starfi sem ekki er þó ljóst hvert var eða hvort það var hennar aðal starf. Það var svo líklega í kringum 1990 að Sigríður fluttist til Brasilíu, ætlaði að gera þar stuttan stans en ílengdist þar í átta ár og var þannig tiltölulega nýkomin aftur heim til Íslands þegar tónlistarferill hennar hófst árið 2001 en hún var þá komin yfir sjötugt. Tildrög þess munu hafa verið þau að brasilísk vinkona hennar fékk leyfi Sigríðar til að nota tónlist eftir hana á plötu og í kjölfarið ákvað hún að gefa einnig út lög sín en þó aðallega fyrir sína nánustu. Það átti þó eftir að breytast og afkastageta hennar var með ólíkindum, árið 2001 komu t.a.m. út níu plötur með henni og voru þær allar tólf laga.

Fyrirkomulag útgáfunnar var með þeim hætti að Sigríður, sem hafði áskotnast kassettu upptökutæki, tók sjálf upp tónlistina heima hjá sér á hljómborðsskemmtara sem hún átti, lét yfirfæra kassetturnar yfir á stafrænt form og svo fjölfalda þær í fimmtíu eintökum. Sjálf teiknaði hún umslög platna sinna og lét fjölfalda einnig, afraksturinn var svo seldur í Japis en þó aðallega í 12 tónum.

Eins og gengur og gerist seldust plötur hennar misvel, sumar þeirra voru tiltölulega rólegar í sölunni á meðan aðrar voru vinsælli, þannig var platan Hin daglegu störf söluhæsta plata hennar og var upplag hennar þrívegis fjölfaldað (samtals í um hundrað og fimmtíu eintökum). Plötur Sigríðar hafa sumar hverjar haft eins konar markmið eða hlutverk, þannig var ein þeirra – Það er ungt og leikur sér, tileinkuð unglingum og af annarri – Stjörnubókinni, rann hluti af söluandvirðinu til munaðarleysingjahælis í Brasilíu. Margar plötur hennar innihéldu jafnvel eins konar þemu s.s. jólalög eða sálma, sumar höfðu jafnframt lagatitla á dönsku, kristilega titla og skírskotanir til trúarlegs efnis, þá höfðu nokkrar að geyma texta – m.a. eftir Sigríði sjálfa, Bjarna Bernharð og Kristján Hreinsson ljóðskáld. Sigríður var einnig með eins konar hljóðtilraunastarfsemi á sumum platna sinna, m.a. með eldhústækjum o.fl. Eina plata Sigríðar sem ekki var tólf laga, var smáskífa sem bar titilinn Sorgarljóð: í minningu þeirra sem létust í ógnarflóðinu 26. desember 2004 – þar var vísað til risaflóðbylgju sem varð þúsundum að fjörtjóni eftir jarðskjálfta í Indlandshafi.

Sigríður Níelsdóttir

Þetta framtak Sigríðar vakti að vonum nokkra athygli og varð til þess að þrír ungir tónlistarmenn, Ingibjörg Birgisdóttir, Orri Jónsson (einkum kenndur við Slowblow) og Kristín Björk Kristjánsdóttir (Kira Kira) ákváðu að gera heimildamynd um Sigríði og tónlistarsköpun hennar. Reyndar auðnaðist Sigríði ekki að líta afraksturinn augum því myndin var ekki frumsýnd fyrr en 2012 en Sigríður hafði látist ári fyrr. Myndin sem bar titilinn Amma Lo-Fi fékk heilmikla athygli og var sýnd víða um heim á kvikmyndahátíðum og vann m.a. til verðlauna en þegar DVD-útgáfa myndarinnar kom út árið 2013 fylgdi með safnplata sem bar heitið Amma Lo-Fi: Kjallaraspólur Sigríðar Níelsdóttur. Ári síðar kom sama tónlist út á kassettuformi en þá með enska titlinum Grandma Lo-Fi: The basement tapes of Sigríður Níelsdóttir, það upplag var takmarkað við tvö hundruð eintök. Tónlist Sigríðar kom reyndar við sögu í fleiri kvikmyndum því Dagur Kári Pétursson notaði lög eftir hana í tveimur myndum sínum, Nóa albinóa (2003) og Voksne menneske (2005).

Hópurinn sem stóð að heimildamyndagerðinni hafði hug á að fá Sigríði til að stíga á svið og halda tónleika en því varð ekki við komið og stofnuðu þau þá í staðinn Stórsveit Sigríðar Níelsdóttur, sem lék á einum tónleikum í Íslensku óperunni (2004) og var tónlist Sigríðar þar auðvitað í forgrunni. Reyndar kom Sigríður Níelsdóttir aldrei fram opinberlega til að flytja tónlist sína eftir því sem best verður vitað.

Sigríði var meira til lista lagt en tónlistin því hún var myndlistamaður einnig sem má auðvitað sjá á fjölbreyttum plötuumslögum hennar, hún hélt fjórum sinnum myndlistasýningar í 12 tónum þar sem hún sýndi klippimyndir en þær vöktu töluverða athygli og voru eftirsóttar, seldust líklega flest allar fljótt og vel.

Tónlistarferill Sigríðar Níelsdóttur stóð til ársins 2009 en þá flutti hún austur á Reyðarfjörð og sagði þar með skilið við tónlistina með jafn snöggum hætti og ferill hennar hafði byrjað. Þar lést hún vorið 2011 áttatíu og eins árs gömul.

Auk ofangreindra sólóplatna Sigríðar sem voru alls ríflega sextíu talsins og tónlistar hennar í kvikmyndum sem einnig eru nefndar hér að ofan má svo nefna að lög hennar má heyra á fáeinum safnplötum, m.a. Fjölskyldualbúmi Tilraunaeldhússins (2006) og Etoiles Polaires (2004) sem kom út í Belgíu en svo gaf hin japanska Yuka Ogura (sem er mikill Íslandsvinur og hefur margoft komið á Iceland Airwaves með hópa) út safnplötuna Songbook í heimalandi sínu, sem var helguð tónlist Sigríðar. Þá má og geta þess að Ben Frost hefur haft lög Sigríðar á að minnsta kosti tveimur plötum sínum.

Líklega verða fáir til að eignast heildarsafn Sigríðar Níelsdóttur enda upplag platnanna lítið en það væri þó verðugt verkefni fyrir ástríðufulla plötusafnara.

Efni á plötum