Afmælisbörn 26. ágúst 2021

Daníel Ágúst Haraldsson

Í dag eru sex tónlistartengd afmælisbörn á lista Glatkistunnar:

Daníel Ágúst Haraldsson tónlistarmaður er fimmtíu og tveggja ára gamall í dag. Hann vakti fyrst athygli á menntaskólaárum sínum með hljómsveitinni Nýdanskri sem hann hefur starfað með, reyndar með hléum, allt til þessa dags. Áður hafði hann verið í hljómsveitinni Chorus. Daníel Ágúst hefur einnig verið í fremstu víglínu í sveitum eins og Gus gus og Esju sem eru af allt öðru tagi en einnig liggja eftir hann tvær sólóplötur, hann hefur aukinheldur verið nokkuð viðloðandi leikhústónlist. Daníel Ágúst fór sem fulltrúi Íslands í Eurovision keppnina 1989, þegar hann söng lag Valgeirs Guðjónssonar, Það sem enginn sér.

Gunnlaugur Helgason sem löngum hefur verið kenndur við dagskrárgerð og reyndar einnig húsasmíði er fimmtíu og átta ára gamall í dag. Gunnlaugur á sér tónlistarferil sem alltof fáir vita af en hann var á árum áður trommuleikari í hljómsveitinni Draumsýn sem starfaði í Réttarholtsskóla. Hann hefur lítið fengist við trommuleik hin síðari ár eftir því sem best er vitað.

Bragi Valdimar Skúlason, oftast tengdur við Baggalút og sjónvarpsþættina Orðbragð er fjörutíu og fimm ára gamall í dag. Auk þess að vera afkastamikið texta og tónskáld hefur Bragi Valdimar komið víða við í tónlist, hann var til að mynda gítarleikari í hljómsveitum eins og Kalk, Klamidíu X, Sýróp, Níkaragva group og Zorglúbb.

Valur (Snær) Gunnarsson tónlistarmaður, blaðamaður og rithöfundur er líka fjörutíu og fimm ára gamall í dag. Hann hefur gefið út sólóplötu og einnig efni í samstarfi við Gímaldin en hefur einnig starfað í hljómsveitum eins og Ríkinu, Val og regnúlpunum og Pétri. Hann var um tíma ritstjóri Grapevine.

Tónlistarmaðurinn Sölvi Jónsson sem gekk undir nafninu Dölli átti þennan afmælisdag einnig en hann lést árið 2021. Dölli sem var fæddur 1975, lét fyrst að sér kveða í tónlistinni í trúbadorakeppni Rásar 2 snemma á þessari öld en það var svo árið 2015 sem hann sendi frá sér sína fyrstu plötu og fjórar aðrar fylgdu í kjölfarið.

Þá hefði Seyðfirðingurinn Ingi T. Lárusson (f. 1892) átt afmæli í dag en hann var þekkt tónskáld á árum áður og samdi mörg kunn sönglög, þeirra á meðal má nefna Ó blessuð vertu sumarsól, Litla skáld á grænni grein, Það er svo margt og Ég bið að heilsa (Nú andar suðrið). Hann var einnig organisti og stjórnaði kórum eystra þrátt fyrir að hafa aldrei fengið tónlistarlega menntun. Ingi T. lést 1946 eftir veikindi.

Vissir þú að Herbert Guðmundsson var eitt sinn í hljómsveitinni Eik?