Ingi T. Lárusson (1892-1946)

ingi-t-larusson2

Ingi T. Lárusson

Þótt Ingi T. Lárusson tónskáld hafi ekki endilega hlotið þá viðurkenningu fyrir framlag sitt til tónlistarinnar sem hann hefði átt skilið í lifanda lífi, hefur hún birst með margs konar hætti í seinni tíð.

Ingi Tómas Lárusson fæddist 1892 á Seyðisfirði hvar hann ólst upp. Hann var af tónelsku fólki kominn og í heimabæ hans blómstraði öflugt tónlistarlíf á þeim tíma sem hann var að alast upp. Hann hlaut reyndar aldrei eiginlega tónlistarmenntun en kenndi sér sjálfur á píanó, orgel og fiðlu og sjálfsagt hefur hann komist í tæri við fleiri hljóðfæri sem leikið hafa í höndunum á honum.

Ingi hóf snemma að semja tónlist og mun lagið Ó, blessuð vertu sumarsól hafa verið hið fyrsta sem hann samdi en þá var hann einungis sjö ára gamall. Heimildir hermdu lengi vel að hann hefði samið lagið við vegavinnu á unglingsárum en blaðsnifsi úr fórum föður hans mun hafa sannað að hann var mun yngri.

Þótt Ingi hefði aldrei hlotið tónfræði- eða tónlistarmenntun sóttist hann eftir því en styrkumsókn hans til alþingis um tónlistarmenntun erlendis var hafnað. Hann varð því aldrei annað en alþýðutónskáld, skrifaði ekki nótur og því hefur minna varðveist af efni eftir hann en ella hefði getað orðið. Síðari tíma músíkantar hafa tengt stíl hans við þýska eða danska rómantík.

Ingi fór til Reykjavíkur í Verzlunarskóla Íslands, stundaði þar nám í tvö ár og kom aftur heim þar sem hann vann við verslunarstörf. Hann bjó einnig og starfaði á Norðfirði um árabil þar sem hann var símstöðvarstjóri og póstafgreiðslumaður, hann starfaði ennfremur á Reyðarfirði og Borgarfirði eystra en endaði sinn starfsferil hjá Tollstjóranum í Reykjavík við skrifstofustörf. Um það leyti brást heilsan honum en Ingi var sjúklingur í hartnær tvo áratugi áður en hann lést vorið 1946 á fimmtugasta og fimmta aldursári, þá hafði hann lengi búið hjá vinafólki á Vopnafirði.

Ingi var sem fyrr segir alþýðulistamaður og hafði því tónlistina aldrei að atvinnu, hann stjórnaði samt sem áður karlakórnum Braga á Seyðisfirði í nokkur ár, var organisti á Norðfirði, var einnig í sönghópnum Áttmenningunum, stjórnaði Tírbrár-kórnum fyrir austan, og mun hafa farið eitthvað um landið og raddþjálfað kóra, þannig var það á Akranesi að minnsta kosti þar sem hann var í fáeina mánuði.

Ingi T. Lárusson var fyrst og fremst þekktur fyrir þrjár lagasmíðar meðan hann lifði, fyrrnefnt Ó, blessuð vertu sumarsól sem hann samdi við ljóð Páls Ólafssonar, Svanur (Í svanalíki) við ljóð Einars Benediktssonar og Ég bið að heilsa (Nú andar suðrið) sem hann samdi við ljóð Jónasar Hallgrímssonar og er líklegast með þekktustu sönglögum íslenskrar tónlistarsögu.

ingi-t-larusson

Ingi með fiðluna á lofti

Tveimur árum eftir andlát hans kom út fyrir tilstilli Arreboe Clausen sönglagahefti með þrjátíu lögum eftir tónskáldið, sautján einsöngslögum, níu karlakórslögum og fjórum lögum fyrir blandaða kóra. Þar sem mörg laganna höfðu aldrei verið skrifuð út á nótur var Carl Billich fenginn til verksins. Þetta sönglagahefti varð til að kynna tónsmíðar Inga fyrir fólki og eru mörg laganna þekkt í dag en hefðu varla náð augum og eyrum almennings annars. Meðal laga Inga má nefna Litla skáld á grænni grein, Ásta, Hríslan og lækurinn, Íslands hrafnistumenn, Það er svo margt og Heyr mig, lát mig finna.

Fyrsta lagið sem kom út eftir Inga T. Lárusson var Hríslan og lækurinn, og kom út á 78 snúninga plötu með Ingibjörgu Þorbergs og Smárakvartettnum árið 1953, í kjölfarið kom Ég bið að heilsa (Nú andar suðrið) út og það hefur reyndar komið út í ótal útgáfum og plötum síðan sem og fleiri lög Inga. 1978 gáfu SG-hljómplötur út plötu með Einsöngvarakvartettnum en hún hafði að geyma sextán lög eftir skáldið. Þannig hafa mörg laga Inga lifað ágætu lífi þótt svo virtist ekki ætla að verða við andlát hans.

Seyðfirðingar hafa verið duglegir að halda minningu Inga T. Lárussonar á lofti, þremur áratugum eftir andlát hans (1976) var reistur þar í bæ minnisvarði um skáldið og þar eru reglulega haldnir minningartónleikar um hann, og reyndar víðar einnig.

Efni á plötum