Sieglinde Kahmann (1931-2023)

Sieglinde Kahmann

Sieglinde Kahmann (Sieglinde Elisabeth Björnsson Kahmann) var þýsk óperusöngkona og söngkennari sem bjó hér á landi í áratugi en hún var eiginkona Sigurðar Björnssonar óperusöngvara.

Sieglinde sem var sópran söngkona fæddist í Austur-Þýskalandi 1931, hún hafði hug á að nema söng í heimalandinu en fékk engin tækifæri til þess og því tók hún til þess ráðs að strjúka yfir til Vestur-Þýskalands til að láta drauma sína rætast. Þar komst hún í söngnám í Stuttgart og að því loknu var hún ráðin til Ríkisóperunnar í borginni þar sem hún kynntist verðandi eiginmanni sínum, óperusöngvaranum Sigurði Björnssyni sem þar starfaði. Þau hjónin bjuggu og störfuðu við óperuhús í Þýskalandi og Austurríki áður en þau fluttust til Íslands árið 1977 en þar hafði Sigurður fengið stöðu framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Starfsumhverfið hér á Íslandi var með allt öðrum hætti en í Þýskalandi og Austurríki, m.ö.o. voru möguleikar til óperusöngs afar litlir og því fékkst Sieglinde mestmegnis við söngkennslu næstu árin, við Söngskólann í Reykjavík, Tónlistarskólann í Reykjavík og tónlistarskólana í Garðabæ og Keflavík. Hún kenndi einkum konum og meðal þekktra nafna meðal nemenda hennar má nefna Sigríði Gröndal, Mörtu Halldórsdóttur og Elísabetu Waage.

Sieglinde var þó ekki alveg hætt að syngja og smám saman komu tækifærin hér á landi, hún söng við óperusýningar, á einsöngstónleikum, í útvarpi og sjónvarpi en einnig ásamt eiginmanni sínum en þau fóru víða um land með tónleikahald. Þau hjónin hættu að syngja opinberlega árið 1997 þegar sýningum á óperunni Kátu ekkjunni lauk.

Töluvert mun vera til af upptökum með söng Sieglinde hjá Ríkisútvarpinu og e.t.v. bíða einhverjar þeirra útgáfu en enn sem komið er eru útgefnar plötur með söng hennar fáar, heyra má þau hjón syngja saman á safnplötunni Íslenskar söngperlur (1994) en annað virðist ekki hafa komið út með henni hér á landi, söng hennar má einnig heyra á fáeinum plötum útgefnum í Þýskalandi og Sviss.

Sieglinde lést í upphafi árs 2023, níutíu og eins árs gömul.