Sigurður Árnason (1947-2020)

Sigurður að störfum í Tóntækni

Sigurður Árnason var kunnur bassaleikari og síðar upptökumaður sem kom við sögu á fjölda hljómplatna.

Sigurður fæddist 1947 í Reykjavík og strax á unglingsárunum var hann farinn að leika með hljómsveitum með drengjum á svipuðu reki, fyrst sem gítarleikari en svo bassaleikari. Segja má að hann hafi fylgt öllum þeim straumum og stefnum sem voru sem vinsælastar á sjöunda áratugnum, gítarrokki, bítlarokki og svo hipparokki. Hann var fljótur að tileinka sér hlutina og t.a.m. var viðtal við hann í einu dagblaðanna þar sem hann var sagður sá fyrsti hérlendis til að klæða sig upp eins og bítill og skarta „bítlaklippingu“. Þá fóru þeir Gunnar Jökull Hákonarson saman til London sumarið 1966 til að kynna sér fræðin, Sigurður kom heim aftur síðsumars en Jökullinn varð eftir og gekk til liðs við The Syn.

Fyrsta hljómsveit Sigurðar var Strengir sem var gítarsveit í anda The Shadows en svo tóku við sveitir eins og Tónar, Toxic og Sálin sem teljast líkast til til bítlatónlistar og svo Náttúra, hipparokk í anda tíðarandans í kringum 1970. Á áttunda áratugnum lék hann svo með sveitum eins og Stólum og Reykjavík.

Sigurður Árnason

Um miðjan áttunda áratuginn tók við nýr kafli hjá Sigurði þegar hljóðversferillinn hófst en hann veitti Tóntækni, hljóðveri SG-hljómplatna í eigu Svavars Gests forstöðu og réði þar ríkjum næstu árin, hljóðritaði þar flestar af þeim plötum sem SG-hljómplötur gáfu út og reyndar margar aðrar en einnig starfaði hann eitthvað sem hljóðmaður. Meðal tónlistarmanna og hljómsveita sem hann hljóðritaði voru Björgvin Gíslason, Gísli Helgason, Hallbjörn Hjartarson, Lúdó og Stefán, Sverrir Stormsker, Alfa beta, Ósk Óskarsdóttir, Þrjú á palli, Upplyfting, Skagakvartettinn, Valgeir Guðjónsson, Kristín Lilliendahl, Söngfuglarnir, Hálft í hvoru, Þeyr, Magnús Þór Sigmundsson, Jónas og Einar, Smjattpattarnir og Jóhann Helgason svo aðeins nokkur dæmi séu tekin. Þá er ekki hjá því komist að nefna í þessu samhengi Bubba Morthens og fyrstu sólóplötu hans, Ísbjarnarnblús (1980) sem Sigurður hljóðritaði en Bubbi hefur sagt frá því að Sigurður hefði skráð miklu færri tíma á hljóðversvinnuna en honum bar án þess að Svavar Gests vissi. Hann hefði haft mikil áhrif á Bubba og kennt honum margt í fræðunum auk þess sem hann lék á bassa á plötunni en hann lék inn á margar þeirra platna sem hann hljóðritaði. Bubbi hefur einnig sagt frá því að Sigurður hefði sannfært hann um að hafa Stál og hníf á plötunni en Bubbi hefði sjálfur verið búinn að afskrifa það.

Sigurður starfaði hjá Tóntækni til 1981 en eftir það fór minna fyrir honum í tónlistinni, það var í raun ekki fyrr en á síðasta áratug aldarinnar sem hann birtist þar aftur og þá aðallega með Rúnari Þór Péturssyni og hljómsveitum hans s.s. Klettum, Trap, Hljómsveit Rúnars Þórs og svo GRM.

Sigurður nam kerfisfræði kominn fram yfir miðjan aldur og starfaði síðan mest í þeim geira eftir það. Hann lést snemma árs 2020, á sjötugasta og þriðja aldursári. Þess má geta að hann var lengi giftur Þorbjörgu Kristjánsdóttur og var þá tengdasonur Kristjáns Kristjánssonar (kenndan við KK-sextett) og mágur Péturs Kristjánssonar, auk þess að vera svili Jóhanns Ásmundssonar bassaleikara.