Sigurður Karlsson (1950-)

Sigurður Karlsson

Trommuleikarinn Sigurður Karlsson eða Siggi Karls eins og hann var oft nefndur var einn allra besti trymbill áttunda áratugar síðustu aldar á Íslandi, lék með fjölda þekktra hljómsveita og var vinsæll session maður, óregla varð til að hann dró sig alltof snemma í hlé frá trommuleiknum en fjöldi útgefinna platna með leik hans er ágætur minnisvarði um getu hans og hæfileika.

Sigurður Guðni Karlsson fæddist 1950, hann lærði á einhver blásturshljóðfæri sem barn og lék m.a. á tenórhorn í Lúðrasveit Kópavogs, og síðar trompet. Svo virðist sem trommuleikaraferill hans hafi byrjað með hljómsveitinni Kinks en síðan tók Opus 4 árið 1967, vorið 1969 gekk hann svo til liðs við hljómsveitina Pónik sem þá var töluvert þekkt sveit og samhliða þeirri sveit virðist hann hafa verið í fyrstu útgáfu hljómsveitarinnar Lísu (sem síðar varð að Mannakornum).

Orðspor Sigurðar sem trommuleikari spurðist út og það var svo vorið 1970 að honum bauðst að ganga til liðs við hljómsveitina Ævintýri sem þá var með vinsælustu sveitum landsins og hafði þá þegar gefið út lag samnefnt sveitinni sem hafði notið mikilla vinsælda, Sigurður tók þar við af Sveini Larssyni og við þau mannaskipti þyngdist tónlist sveitarinnar til mikilla muna. Ævintýri fór utan til Svíþjóðar og þar fékk Sigurður þá einkunn hjá þarlendum umboðsmanni að hann væri besti trommuleikari Norðurlandanna og bauðst sveitinni þá að búa og starfa í landinu ef þeir hefðu á því áhuga. Sigurður var þá kominn með fjölskyldu og í lærlinganám í bólstrun og hafnaði því tilboði.

Sigurður sem lék á annarri smáskífu Ævintýris og svo á plötu Björgvins Halldórssonar um svipað leyti var þarna farinn að vekja verulega mikla athygli fyrir hæfileika sína og til stóð jafnvel að hann gengi til liðs við hljómsveitina Náttúru, svo eftirsóttur var hann.

Það var svo í ársbyrjun 1972 sem hann stofnaði ásamt fleirum proggsveitina Svanfríði en sú sveit fór mikinn það árið, og gaf m.a. út breiðskífuna What‘s hidden there? en einnig lék sveitin á tveimur smáskífum, á breiðskífunni kom Sigurður fram í fyrsta sinn sem lagahöfundur en hann samdi þar eitt lag. Um þetta leyti lék hann einnig á smáskífu Rúnars Gunnarssonar.

Árið 1973 hætti Svanfríður störfum og var Pelican stofnuð upp úr henni en Sigurður fór hins vegar til Bretlands og gekk þar til liðs við hljómsveitina Change sem þeir Magnús Þór Sigmundsson og Jóhann Helgason voru þá að stofnsetja utan um meikdrauma sína í London. Change harkaði í nokkur ár ytra, sendi frá sér breiðskífu og nokkrar smáskífur en árið 1976 gáfust þeir flestir upp og komu aftur heim til Íslands. Á Bretlandsárunum lék Sigurður inn á nokkrar plötur  s.s. með Gylfa Ægissyni, Ómari Óskarssyni, Hvítárbakkatríói Jakobs Magnússonar og Stuðmönnum en einnig hafði hann komið lítillega við sögu hljómsveitar sem kallaðist Iceband og var skammlíft verkefni hér heima.

Siggi Karls

Sigurður gekk til liðs við hljómsveitina Pónik þegar hann kom heim í upphafi árs 1976 og lék með henni í Sigtúni fram á vor en gekk þá í Celsíus og lék inn á eina smáskífu með þeirri sveit. Með þeirri sveit varð hann fyrir því óhappi að úlnliðsbrotna á báðum höndum sem rekja mátti til drykkju og slagsmála vestur á fjörðum en Sigurður var heillengi frá vinnu vegna þess. Reyndar lék hann um tíma brotinn, m.a. á útitónleikum með Stuðmönnum en sú sveit var þá ekki fullmótuð og var Sigurður í raun fyrsti íslenski trommuleikari þeirrar sveitar.

Einnig lék Sigurður inn á fjölda platna annarra tónlistarmanna í framhaldinu enda var Hljóðriti nýtekinn til starfa þegar þetta var og varð Sigurður vinsæll session-trymbill, lék m.a. á næstu árum á plötum Megasar, Spilverks þjóðanna, Jóhanns Helgasonar, Vilhjálms Vilhjálmssonar, Samkórs Vestmannaeyja, Viðars Jónssonar, Halla og Ladda, Bergþóru Árnadóttur, Lummanna og Bjarkar Guðmundsdóttur en á síðast töldu plötunni lék hljómsveitin Póker sem Sigurður var þá genginn í, undir hjá hinni ellefu ára gömlu Björk. Jazzvakning hafði verið stofnuð um miðjan áttunda áratuginn og lék Sigurður oftsinnis á djasskvöldum á vegum þess félagsskapar sem og á blúskvöldum m.a. með Blúskompaníinu, svo fjölbreytt verkefnin voru af ýmsum toga.

Sigurður hafði samið á plötu Svanfríðar nokkrum árum fyrr og hann fór að prófa sig áfram með frekari lagasmíðar þar sem trommusláttur var áberandi, hann lék t.a.m. frumsamið tónverk á myndlistarsýningu þar sem hann var með einhverja effekta á segulbandi með trommuleik sínum – það varð að því sem hann kallaði síðar Nútímann og flutti sem skemmtiatriði á Fegurðarsamkeppni Íslands.

Við upptökur á plötu Bjarkar Guðmundsdóttur

Árið 1978 hætti Sigurður í Póker, starfaði um tíma með hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar sem síðar varð að Brunaliðinu en með þeirri hljómsveit starfaði hann í tvö sumur við feikimiklar vinsældir en í gegndarlitlu sukki sem fylgdi sveitinni, Brunaliðið gaf út nokkrar plötur með Sigurð innanborðs en einnig lék hann með Sjálfsmorðssveitinni svokölluðu sem lék með Megasi á frægum tónleikum í Menntaskólanum við Hamrahlíð, sem síðar voru gefnir út á tvöfaldri plötu.

Sigurður lék sem fyrr mikið á plötum annarra listamanna undir lok áttunda áratugarins og fram á þann níunda, þetta voru t.d. plötur með Ása í Bæ, Ruth Reginalds, Björgvini Halldórssyni, Silfurkórnum, Bjarka Tryggva, Heimavarnarliðinu, Magnúsi Þór Sigmundssyni, Kötlu Maríu, Áhöfninni á Halastjörnunni, Vísnavinum, Hálfu í hvoru, Big nós band, Bjartmari Guðlaugssyni, Helga Péturssyni og Sumargleðinni svo nokkur nöfn séu nefnd. Þá lék hann einnig inn á plötur sem tengdust leikhúsinu s.s. tónlist úr Öskubusku og Emil í Kattholti og lék reyndar á trommur í sýningum Þjóðleikhússins á söngleiknum Prinsessunni á bauninni.

Hann lék áfram með nokkrum hljómsveitum, var t.d. í endurlífgaðri útgáfu af Póker en sú sveit varð reyndar skammlíf, eftir það gekk hann í Eik og starfaði með henni um tíma sem og hljómsveitinni Íslenskri kjötsúpu sem gaf út samnefnda plötu en gekk svo í Geimstein Rúnars Júlíussonar um haustið og starfaði líklega með henni um veturinn. Sumarið 1980 stofnaði svo Sigurður ásamt Pálma Gunnarssyni sem hafði starfað með honum í fjölda sveita, hljómsveitina Friðryk, sú sveit sendi frá sér plötu 1981 og þar samdi Sigurður eitthvað af efninu, þegar Pálmi hætti í þeirri sveit tók Sigurður við söngnum í sveitinni en hún starfaði ekki lengi eftir það. Hann hélt jafnframt áfram að spila blús með Blúskompaníinu og djass á Jazzvakningarkvöldum þegar það átti við og m.a. með Tríói Guðmundar Ingólfssonar um tíma.

Sigurður Karlsson

Haustið 1982 sendi Sigurður frá sér fimm laga sólóplötuna Veruleiki? undir merkjum eigin útgáfufyrirtæki sem hlaut nafnið Veran. Tónlistin þótti óvenjuleg en platan hlaut ágæta dóma í Þjóðviljanum, Tímanum og Poppbók Jens Guð og vakti töluverða athygli en tónlistina samdi hann sjálfur við texta Kristjáns Hreinssonar, sjálfur söng hann og lék líklega sjálfur á flest eða öll hljóðfæri en einnig kom Pálmi Gunnarsson við sögu hennar. Reyndar hafði Sigurður ákveðnar hugmyndir um að „stækka“ eitt laganna á plötunni, Beirút – útsetja það fyrir áttatíu manna sinfóníuhljómsveit, bæta við forleik og lokakafla og nota m.a. fallbyssur við flutning verksins. Annað tónverk eftir hann, Bakkus var síðan flutt á tónleikum um haustið með tuttugu manna sveit. Sigurður sagði frá því í blaðaviðtali að hann hefði látið gera myndband við verkið, sem hann hefði sent Paul McCartney – ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um viðbrögð Bítilsins.

Á þessum tíma var Sigurður alveg hættur að drekka en hann hafði fyrst farið í meðferð árið 1979, hann hafði þarna gerst Votti Jehóva og hafði notað trúna til að snúa baki við sukkinu, hann var jafnframt þessu hættur að leika á dansleikjum en átti þó eftir að leika í hljóðverum í fáein ár áfram sem og á tónleikum, hann lék t.d. með hljómsveit Gunnars Þórðarsonar á einhverjum tónlistarsýningum á Broadway og víðar, með Blúskompaníinu á blúskvöldum og þess háttar samkomum.

Sigurður Karlsson

Sigurður hætti smám saman á næstu árum að leika á trommur, lék reyndar inn á nokkrar plötur fram yfir miðjan níunda áratuginn en hóf síðan að starfa við gluggaþvott og síðan þrif, hann flutti ásamt eiginkonu sinni austur á Hellu og starfaði þar einnig við Tónlistarskóla Rangæinga en einnig starfrækti hann eigin trommuskóla um tíma. Þau hjónin bjuggu á Hellu til 1999 en fluttu þá til Danmerkur þar sem Sigurður nam fótaaðgerðafræði og setti á stofn fyrirtæki þess eðlis, þau komu svo aftur heim til Íslands árið 2008 og starfæktu fyrirtækið hér heima um tíma.

Sigurður hafði ekki snert trommusettið að neinu marki þegar hljómsveitin Svanfríður kom saman árið 2012 og lék á tónleikum, hann lék svo um tíma með hljómsveitinni Hátveiro sem sérhæfði sig í tónlist Genesis en hefur lítið sem ekkert fengist við trommuleik allra síðustu árin.

Þess má að lokum geta að Sigurður var heiðraður fyrir framlag sitt til íslensks tónlistarlífs af Félagi íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) árið 2013.

Efni á plötum