Tóntækni [hljóðver] (1975-81)

Sigurður Árnason að störfum í Tóntækni

SG-hljómplötur í eigu Svavars Gests ráku um tíma hljóðverið Tóntækni sem staðsett var við Ármúlann í Reykjavík.

Þar voru fjölmargar hljómplötur teknar upp, bæði sem gefnar voru út af SG-hljómplötum sem og öðrum útgáfufyrirtækjum og einstaklingum. Sigurður Árnason réði ríkjum í hljóðverinu og tók upp fjölda platna á þeim tíma sem það starfaði.

Tóntækni tók til starfa haustið 1975 en hafði þá átt sér nokkurn aðdraganda, reksturinn gekk þó ekki alveg sem skyldi undir það síðasta og vorið 1981 voru öll tæki hljóðversins auglýst til sölu.

Jóhann Helgason varð fyrstur tónlistarmanna til að taka upp plötu í Tóntækni en í kjölfarið fylgdu fjölmargir tónlistarmenn og hljómsveitir, þeirra á meðal má nefna Hörð Torfa, Lúdó og Stefán, Jakob Frímann Magnússon, Fræbbblana, Þey og Bubba Morthens en sá síðast nefndi tók Ísbjarnarblús sinn upp þar.