SG-hljómplötur [útgáfufyrirtæki] (1964-84)

Merki SG-hljómplatna

Útgáfufyrirtækið SG-hljómplötur var starfrækt um tveggja áratuga skeið og á þeim tíma gaf fyrirtækið út fjölda hljómplatna og kassetta sem seldust gríðarlega vel enda var fyrirtækið nánast einrátt á markaðnum um tíma, þegar fleiri útgáfufyrirtæki skutu upp kollinum urðu SG-hljómplötur smám saman undir og fyrirtækið leið undir lok.

Segja má að SG-hljómplötur hafi orðið til fyrir einskæra tilviljun, Svavar Gests hafði verið farsæll tónlistarmaður, stjórnað hljómsveitum í eigin nafni, rekið útgáfufyrirtækið Tóniku, gefið út tímarit um tónlist og verið tengdur tónlist á einn eða annan hátt um árabil og þegar hér var komið sögu hafði hann einnig verið vinsæll þáttastjórnandi í útvarpi. Í einni slíkri þáttaröð veturinn 1963-64 hafði verið boðið upp á söng kórs sem hafði hlotið nafnið Fjórtán fóstbræður en kór þessi hafði hlotið fádæma vinsældir um veturinn fyrir léttar lagasyrpur, Svavari datt þá í hug að söngurinn ætti erindi á stóra hljómplötu og hafði því samband við plötuútgefandann Tage Ammendrup hjá Íslenzkum tónum. Hann var hins vegar að leggja niður útgáfufyrirtækið sitt en stakk upp á að Svavar myndi sjálfur gefa út plötuna, hann hefði sjálfur rekið útgáfufyrirtækið Tóniku og hefði því reynslu auk þess sem það væri að myndast tómarúm á markaðnum sem Svavar gæti nýtt sér enda væri Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur sem einnig gaf út plötur að hætta störfum líka. Það varð því úr að Svavar gaf plötuna sjálfur út.

Þegar kom að því að hanna plötumiða með lógói plötuútgáfunnar hafði Svavar ekki einu sinni hugsað út í þá hluti svo hending olli því að hin sígilda útgáfa plötumiðanna varð til, SG ritað með svörtu letri á gulum grunni sem varð eitt aðal einkenni platna á vegum fyrirtækisins, merki útgáfunnar var síðar tvívegis breytt.

Fjórtán fóstbræður – fyrsta útgefna plata SG-hljómplatna

Platan Fjórtán Fóstbræður með Hljómsveit Svavars Gests – Syngið með: Lagasyrpur úr útvarpsþættinum „Sunnudagskvöld með Svavari Gests”, sem bar útgáfunúmerið SG-001 kom því út haustið 1964 og strax í kjölfarið kom út plata með Savanna tríóinu áður en þriðja breiðskífan, einnig með Fjórtán fóstbræðrum, kom út 1965. Fyrir jólin 1964 gaf Svavar jafnframt út fyrstu smáskífuna en það var fjögurra laga platan Elly Vilhjálms og Ragnar Bjarnason syngja fjögur jólalög, sú plata bar útgáfunúmerið SG-501 og þegar kassetturnar komu síðar til sögunnar hófst sú útgáfuröð í SG-701.

Þessar fyrstu plötur gengu gríðarlega vel og á næstu árum kom út fjöldinn allur af smáskífum og breiðskífum sem seldust vel, Svavar var nú orðinn svo gott sem einráður á markaðnum enda hafði Fálkinn sem einnig stóð í slíkri útgáfu hægt um sig á þessum markaði. Þannig komu út á vegum SG-hljómplatna stórar og litlar plötur með vinsælum söngvurum og hljómsveitum eins og Ómari Ragnarssyni, Þremur á palli, Elly Vilhjálms, Hljómsveit Ingimars Eydal, Savanna tríóinu, Sextett Ólafs Gauks, Vilhjálmi Vilhjálmssyni, Svanhildi Jakobsdóttur og Þorvaldi Halldórssyni en svo einnig með hljómsveitum og tónlistarfólki sem enn var óskrifað blað eins og Hljómar, Dátar, Geislar, Þuríður Sigurðardóttir, Hanna Valdís og svo mætti áfram lengi telja. Aukinheldur gaf Svavar út plötur sem fyrirfram var vitað að myndi ekki seljast eins vel en hagnaðurinn af vinsælu plötunum jafnaði það tap út, þarna mætti nefna Lúðrasveit Reykjavíkur, Karlakór Reykjavíkur, Sigríður Ella Magnúsdóttir o.fl.

Á þessum árum naut Svavar aðstoðar manna eins og Magnúsar Ingimarssonar, Ólafs Gauks Þórhallssonar og Jóns Sigurðssonar sem útsettu og stjórnuðu hljómsveitum á plötunum og áttu þeir ekki hvað sístan þátt í vinsældum efnisins. Ekki var þó samkomulag Svavars við fjölmiðlana ekki alltaf gott og árið 1970 fór hann þess á leit við dagblöð og tímarit að ekki yrði fjallað um plötur á vegum fyrirtækisins í þeim.

SG-hljómplötur gengu vel fyrri áratuginn sem fyrirtækið starfaði og um miðjan áttunda áratuginn setti Svavar á stofn hljóðverið Tóntækni en þar voru bæði hljóðritaðar plötur sem komu út á vegum útgáfunnar en einnig var það leigt til annarra aðila, Sigurður Árnason var við völd í Tóntækni sem staðsett var í Ármúlanum.

Ein af síðustu plötum SG-hljómplatna – tvöföld safnplata með Ómari Ragnarssyni

Um þetta leyti, 1975 kom nýtt útgáfufyrirtæki til sögunnar sem bar nafnið Steinar og svo til á sama tíma birtist Hljómplötuútgáfan sem síðar varð að Skífunni. Í þeirri samkeppni sem fór svo harðnandi með árunum er eðlilegt að Svavar þyrfti smám saman að draga saman seglin og svo fór að lokum að hann lagði SG-hljómplötur niður árið 1984, það ár komu síðustu breiðskífurnar út (allt endurútgáfur) en 1981 hafði síðasta smáskífan litið dagsins ljós.

Alls komu út á vegum SG-hljómplatna 176 titlar breiðskífna og 79 smáskífur en einnig á annað hundrað kassetta. Margar af plötunum voru endurútgefnar í tíð Svavars og komu þá gjarnan út með nýju plötuumslagi, það sama má segja um kassettuútgáfu fyrirtækisins.

Svavar hafði á sínum tíma eignast útgáfuréttinn af þeirri tónlist sem Íslenzkir tónar höfðu gefið út og endurútgaf eitthvað af þeirri tónlist (undir merkjum Íslenskra tóna) á síðustu árum SG-hljómplatna. Steinar eignaðist síðar útgáfuréttinn af SG-katalógnum og sá útgáfuréttur rann síðar til Skífunnar, Senu og nú síðar til Öldu music sem hefur rétt eins og fyrrnefnd útgáfufyrirtæki verið ötul í endurútgáfu á efni SG-hljómplatna. Þannig hefur á síðustu áratugum mestmegnis af efni SG-hljómplatna t.d. komið út á geisladiskum, sem voru ekki komnir til sögunnar í tíð SG-hljómplatna.