Skagakvartettinn (1967-94)

Skagakvartettinn

Skagakvartettinn

Skagakvartettnum skaut upp á stjörnuhimininn 1976 þegar þeir félagar gáfu út gríðarlega vinsæla hljómplötu, sem enn í dag eru spiluð lög af í útvarpi.

Kvartettinn var stofnaður á Akranesi af fjórum félögum í Oddfellow-klúbbnum þar í bæ árið 1967, í því skyni að skemmta á skemmtum sem klúbburinn hélt.
Þetta voru þeir Helgi Júlíusson, Hörður Pálsson, Sigurður Ólafsson og Sigurður R. Guðmundsson, sem einnig lék á gítar á skemmtunum þeirra félaga.

Næstu árin komu þeir víðs vegar fram á söngskemmtunum og svo fór að þeir komu fram í sjónvarpi 1976 og stuttu síðar kom út hljómplatan Kátir voru karlar, sem Svavar Gests og SG hljómplötur gaf út. Platan var tekin upp í Tóntækni og unnin af Sigurði Árnasyni og Ólafi Gauki Þórhallssyni, sem ennfremur annaðist útsetningar. Lögin komu úr ýmsum áttum, bæði íslensk og erlend, og textarnir komu sömuleiðis héðan og þaðan. Þess má geta að lagið Ríðum ríðum varð löngu síðar vinsælt í meðförum Helga Björns og Reiðmanna vindanna.

Platan hlaut strax góðar viðtökur og lög á borð við Kátir voru karlar, Skagamenn skoruðu mörkin, Heimaleikfimi, Jón og ég, auk Umbarassa urðu fastagestir í útvarpi næstu árin, og hafa löngu síðan orðið sígild hvort heldur er sem í útvarpi eða í söng- og gítarheftum.

Þótt Skagakvartettinn gæfi ekki út fleiri plötur voru þeir tíðir gestir á söngskemmtunum næstu árin, þeir störfuðu ekki samfleytt en segja má að þeir hafi sungið sitt síðasta haustið 1994 þegar þeir komu saman í síðasta skipti allir fjórir.

Nokkur laga kvartettsins hafa komið út á safnplötum og -snældum í gegnum tíðina, þar má nefna Alltaf í boltanum… Áfram Ísland (2003), Óskalög sjómanna (2007), Skagamenn skoruðu mörkin (2007), Stóra bílakassettan III (1979) og Stóra bílakassettan V (1979).

Efni á plötum