Skytturnar þrjár (2000)

Hiphop-sveitin Skytturnar þrjár var fremur skammlíf sveit sem starfaði árið 2000.

Skytturnar þrjár urðu til um svipað leyti og 110 Rottweiler hundar (síðar XXX Rottweiler) sigruðu Músíktilraunir vorið 2000 en tveir af Skyttunum þremur voru í þeirri sveit, Eiríkur Ástþór Ragnarsson plötusnúður og Elvar Gunnarsson (Seppi / Hr. Kaldhæðinn) rappari, sá síðarnefndi hafði þá verið kjörinn besti rappari Músíktilraunanna – þriðji meðlimur Skyttnanna var Kristján Þór Matthíasson (StjániHeitirMisskilinn) rappari. Þremenningarnir kölluðu sig um svipað leyti einnig KVS (Kaldhæðni við stjórn) en það var önnur sveit.

Ekki liggur fyrir hversu lengi Skytturnar þrjár störfuðu en það voru líkast til nokkrir mánuðir, ekkert bendir til að þremenningarnir hafi komið fram opinberlega undir þessu nafni og ekki finnast heldur heimildir um útgefið efni sveitarinnar. Þegar Eiríkur yfirgaf tríóið héldu þeir Elvar og Kristján áfram samstarfinu undir nafninu SOS (S.o.S = Seppi og Stjáni), og Afkvæmi guðanna varð síðar til út frá því samstarfi.