Skytturnar [4] (1998-2005 / 2011-13)

Skytturnar

Akureyska hiphopsveitin Skytturnar vakti töluverða athygli í kringum síðustu aldamót þegar rappvorið sem svo mætti kalla stóð sem hæst, sveitin var þó hálfgert eyland í tónlistarflóru þeirra Akureyringa og naut mun meiri velgengni sunnan heiða en norðan.

Segja má að sveitin hafi verið stofnuð 1998 en þá höfðu meðlimir hennar starfað undir nafninu Definite skillz um skeið. Fyrst um sinn röppuðu þeir félagar á ensku en um aldamótin fylgdu þeir þeirri þróun sem varð þá meðal rappsveita á höfuðborgarsvæðinu að fara með rímur sínar á íslensku. Meðlimir Skyttnanna voru þeir Sigurður Kristinn Sigtryggsson (Sadjei) taktsmiður, Hlynur Ingólfsson rappari, Heimir Björnsson (Heimir Bjéjoð) rappari og Gunnar Líndal (GLS) rappari.

Skytturnar gáfu út níu laga plötu undir titlinum SP árið 2001 en um var að ræða heimaútgáfu sem fór ekki hátt enda var upplagið aðeins um 70 eintök sem líklega seldust flest í heimabænum Akureyri. Á skífunni var m.a. að finna lagið Ég geri það sem ég vil, en það lag heyrðist svo í kvikmyndinni Gemsar sem var frumsýnd árið 2002 og var plata gefin út í kjölfarið með tónlistinni úr myndinni. Þar með var athygli vakin á hljómsveitinni og menn tóku að sperra eyrun við hinu norðlenska rappi. Í kjölfarið hóf sveitin að koma meira fram opinberlega, mestmegnis á heimaslóðum en nýtti sér til þess að gera nýtilkomið intetnet, þannig naut fyrrnefnt lag töluvert mikilla vinsælda á útvarpsstöðinni Muzik.is. Það var svo um vorið 2002 sem Skytturnar komu í fyrsta sinn fram á höfuðborgarsvæðinu og þá hafði Styrmir Hauksson bæst í hópinn en hann sá þá um taktsmíði og sömpl ásamt Sigurði meðan hinir þrír röppuðu.

Þetta sumar átti sveitin lag á safnplötunni Rímnamín og hlaut framlag þeirra þar ágætar viðtökur. Um verslunarmannahelgina komu Skytturnar svo fram á Einni með öllu á Akureyri og enn vænkaðist hagur sveitarinnar þegar þeir áttu lag á safnplötunni Bumsquad um haustið, þá komu þeir jafnframt við sögu sem gestir á plötu Bert & 7Berg – Góða ferð.

Skytturnar 2003

Haustið 2002 voru Skytturnar meðal þeirra sem komu fram á fjórðu Iceland Airwaves hátíðinni og í kjölfarið kom sveitin fram í nokkur skipti um veturinn en eins og hægt er að ímynda sér var lítill grundvöllur fyrir tónleikahaldi í heimabænum Akureyri. Þess í stað unnu þeir félagar að gerð plötu sem var reyndar tilbúin til útgáfu um haustið 2002 en þeir fengu bakþanka og ákváðu að vinna hana upp á nýtt, þ.e. að breyta öllu undirspili í lifandi hljóðfæraflutning, sú breyting varð henni klárlega til góða.

Þarna hafði sveitinni bæst liðsstyrkur í Þorgils Gíslasyni (Togga Nolem) sem lék á fjölda hljóðfæra á nýju upptökunum og rapparans Atla Sigþórssonar (A-ess) en hann átti síðar eftir að vekja athygli undir nafninu Kött Grá Pjé. Einnig virðist Friðfinnur [?] hafa verið kominn í Skytturnar um þetta leyti en hann mun þó ekki hafa komið við sögu á plötunni, litlar upplýsingar er að finna um hann og þátt hans með sveitinni.

Skytturnar ætluðu sjálfir að gefa plötuna út en þegar Sonet/Bitra bauðst til að sjá um útgáfuþáttinn þáðu þeir það og platan kom út um haustið 2003 eftir að þeir félagar höfðu verið fremur rólegir í tíðinni um sumarið. Platan bar heitið Illgresið og kom út rétt áður en sveitin spilaði á Airwaves hátíðinni og reyndist það prýðileg tímasetning og um leið að það hafði verið góð hugmynd að hafa haft tónlistarflutninginn á henni „handknúinn“ enda voru tónlistarskríbentar á því að tónlist sveitarinnar brúaði bilið milli rapps og popps, þeir væru frumkvöðlar í lífrænni rapptónlist. Skytturnar fóru mikinn á Airwaves og flestir sem fjölluðu um hátíðina í fjölmiðlum voru á því að sveitin væri orðin meðal þeirra allra fremstu hér á landi í hiphopinu .

Illgresið hlaut jafnframt frábæra dóma í Morgunblaðinu og mjög góða í Popplandi á Rás 2, DV og Fréttablaðinu, og í uppgjöri blaðanna við áramót varð sveitin í öðru sæti yfir bestu plötur ársins hjá DV, í þriðja sæti hjá Fréttablaðinu og ofarlega hjá Morgunblaðinu einnig en hljómsveitin Mínus var að flestra mati með plötu ársins. Skytturnar voru ennfremur tilnefndar sem nýliði ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum.

Skytturnar á forsíðu Fókuss

Útgáfu plötunnar var fylgt eftir með útgáfutónleikum sunnan heiða og norðan, og einnig hitaði sveitin upp fyrir Quarashi á tónleikum, sem á þeim tíma hafði öðlast nokkra alþjóðafrægð. Fyrir jólin 2003 hafði einnig komið út plata með hiphop-sveitinni Forgotten lores (Týndi hlekkurinn) og komu Skytturnar þar við sögu sem gestir eins og títt er milli rappara, þannig komu t.d. rappararnir Diddi Fel, Byrkir og Class B við sögu á Illgresinu – og reyndar einnig söngkonan og Akureyringurinn Anna Katrín Guðbrandsdóttir sem um svipað leyti hafði vakið athygli í fyrstu Idol-keppninni hérlendis.

Velgengni plötunnar gaf hljómsveitinni byr undir báða vængi og á næstu tveimur árum lifði sveitin nokkuð á henni, lék á fjölda tónleikum, m.a. ásamt 200.000 naglbítum í KA-heimilinu á Akureyri 2004 og með Quarashi 2005, en einnig fóru Skytturnar þó nokkuð suður til Reykjavíkur til tónleikahalds, léku þá m.a. á Grand rokk, Iceland Airwaves og Innipúkanum um verslunarmannahelgina (2004). Hápunktinum var þó væntanlega náð þegar sveitin hitaði upp fyrir stúlknasveitina Sugarbabes í Laugardalshöllinni vorið 2004 fyrir um 5000 manns.

Vorið 2005 var komið því að Skytturnar tóku sér hlé enda voru þeir þá búnir að vera nokkuð samfellt í framlínu hiphopsins á Íslandi í þrjú ár og bylgjan fremur á undanhaldi. Meðlimir sveitarinnar voru þó síður en svo hættir í tónlist og sneru sér m.a. sumir hverjir að sólóefni, þannig sendi Sadjei (Sigurður) frá sér sólóplötur en einnig birtust þeir Sigurður og Heimir í hljómsveitinni Fræ (ásamt Önnu Katrínu) og sendu frá sér plötu.

Það var svo árið 2011 sem Skytturnar komu saman aftur en það mun hafa verið tengt tónleikaröð Emmsjé Gauta, Í freyðibaði. Í kjölfarið hófu þeir samstarf á nýjan leik um nokkurt skeið og sendu frá sér nýtt efni án þess þó að gefa út plötu. Sveitin starfaði til ársins 2013 en virðist þó ekki hafa verið að öllu fullmönnuð, þannig voru þeir Þorgils, Hlynur og Heimir bara þrír um tíma en einnig komu þeir Gunnar og Atli eitthvað við sögu, upplýsingar er ekki að finna um hvort Sigurður og Styrmir tóku þátt í endurkomunni. Á þessum árum lék sveitin m.a. á tónlistarhátíðum eins og Einni með öllu á Akureyri og Gærunni á Sauðárkróki, þá komu þeir félagar við sögu sem gestir á plötu Emmsjé Gauta – Þeyr.

Þrátt fyrir að þessi endurkoma yrði ekki til að sveitin gæfi út fleiri plötur, varð hún þó til þess að ýta við meðlimum sveitarinnar til að gefa út sólóefni og síðan þá hafa Heimir rappari (áður Heimir Bjéjoð), Nolem og Kött Grá Pjé (áður A-ess) sent frá sér sólóplötur.

Ekki er alveg víst að Skytturnar séu endanlega hættar störfum og verður tíminn einn að leiða í ljós hvert framhaldið verður.

Efni á plötum