Afmælisbörn 20. janúar 2022

Reynir Sigurðsson

Fimm afmælisbörn koma í dag við sögu á skrá Glatkistunnar yfir tónlistarfólk:

Ársæll Másson gítarleikari og menntaskólakennari er sextíu og sjö ára gamall í dag en hann hefur leikið með ýmsum sveitum í gegnum tíðina. Þeirra á meðal má nefna Stórsveit Reykjavíkur, Bambinos, Misgengið og Föruneyti Gísla Helgasonar. Ársæll gegndi starfi djasstónlistargagnrýnanda á DV um tíma.

Þórhallur Sigurðsson (Laddi) tónlistarmaður og skemmtikraftur er sjötíu og fimm ára gamall í dag. Laddi er þekktastur fyrir grínið og hefur m.a. gefið út fjölmargar plötur einn og í félagi við aðra, en hefur einnig sungið alvarlegri tónlist. Hann var trymbill í hljómsveitum hér áður fyrr og spilaði hér heima sem erlendis með þeim. Fyrir fáeinum árum kom út bók um Ladda, Þróunarsaga mannsins sem kom okkur til að hlæja, skráð af Gísla Rúnari Jónssyni en áður hafði önnur bók komið út um hann.

Næstur á lista er Kristján Björn Snorrason en hann er sjötíu og sjö ára gamall á þessum degi. Kristján er líklega þekktastur fyrir að stofna og starfrækja hljómsveitina Upplyftingu þar sem hann hefur sungið og leikið á hljómborð og harmonikku, sú sveit hefur sent frá sér nokkrar plötur. Kristján hefur einnig leikið með hljómsveitum eins og Capital og Combói Kalla Skírnis.

Tónlistarmaðurinn Reynir Sigurðsson er áttatíu og þriggja ára í dag. Reynir sem leikur á ótal hljóðfæri s.s. slagverkshljóðfæri, harmonikku, píanó, bassa og margt fleira á fjölbreyttan feril að baki, hefur leikið með fjölda hljómsveita um ævina, leikið inn á tugi hljómplatna, skrifað kennslubækur, samið og útsett tónlist, komið að félagsmálum tónlistarmanna og þannig mætti áfram telja.

Og að síðustu er hér nefnd Margrét Rósa Dóru- Harrysdóttir bassaleikari hljómsveitarinnar Kælunnar miklu sem hefur vakið mikla athygli á síðustu árum fyrir tónlist sína og gefið út nokkrar breiðskífur og leikið á fjölda tónleika. Margrét Rósa er tuttugu og átta ára gömul á þessum degi.

Vissir þú að Helena Eyjólfsdóttir var mágkona Ingimars Eydal?