Smartband (1985)

Smartband

Hljómsveitin Smartband starfaði aldrei nema í kringum hljóðversvinnu þeirra Kjartans Ólafssonar tónskálds og Péturs Grétarssonar slagverksleikara, en gat þó af sér stórsmellinn La-líf sem naut mjög svo óvæntra vinsælda á vormánuðum 1986.

Þeir Kjartan Ólafsson og Pétur Grétarsson munu hafa stofnað Smartbandið fáeinum dögum áður en þeir fóru í hljóðver sumarið 1985 til að hljóðrita fjögur lög ætluð til útgáfu. Þeir fengu Illuga Jökulsson til að semja þrjá texta af fjórum en lögin sjálf voru eftir Kjartan. Smartband var dúett þeirra tveggja en þeir fengu einnig til liðs við sig þá Skúla Sverrisson bassaleikara og Kristján Eldjárn gítarleikara sem þá var aðeins fjórtán ára gamall og spilaði þarna inn á sína fyrstu plötu. Einnig söng leikarinn Magnús Ragnarsson í einu laganna en Kjartan sá sjálfur um allan annan söng.

Þegar platan kom svo út um miðjan nóvember fékk hún strax afar jákvæðar viðtökur og í dómum sem birtust um hana voru gagnrýnendur undantekningalaust jákvæðir, platan fékk t.a.m. ágæta dóma í Helgarpóstinum, DV, Morgunblaðinu og Sjómannablaðinu Víkingi – platan seldist þó ekki mikið og varð að sögn Kjartans síðar ekki á meðal þrjátíu söluhæstu platna ársins.

Það sem einkum vakti athygli voru óvæntar vinsældir lagsins La-líf en í því lagi var textinn (eftir Kjartan sjálfan) sunginn „afturábak“ sem var sjálfsagt ástæðan fyrir vinsældum lagsins enda lögðust allir á eitt með að snúa textanum á ýmsa kanta til að reyna að koma honum á skiljanlegt form. Ýmsir töldu sig hafa ráðið gátuna en hvergi er þó að finna upplýsingar um „réttan texta“. Kenningar voru í gangi m.a. um að textinn hefði verið unninn upp úr blaðagrein í Morgunblaðinu en Kjartan hefur aldrei opinberað leyndarmálið. Myndband var gert við La-líf en lagið varð reyndar ekki vinsælt fyrr en nokkuð var liðið á nýtt ár, og það var svo í lok mars 1986 sem það náði toppsæti vinsældalista Rásar 2 og var þar í nokkrar vikur. Lagið heyrist enn reglulega spilað í útvarpi og er ágæt heimild um íslenskt eitís popp, það hefur jafnframt komið út á fáeinum safnplötum. Annað lag á plötunni, Ég vil vera bláu augun naut einnig nokkurra vinsælda.

Smartband fylgdi plötunni aldrei eftir með spilamennsku, Kjartan var um þessar mundir í tónsmíðanámi í Hollandi svo því varð ekki við komið, og áætlanir um útgáfu annarrar plötu árið eftir runnu jafnframt út í sandinn. Ekkert varð því úr að aðdáendur sveitarinnar fengju að heyra nýtt efni frá henni en platan var í heild sinni gefin út á geisladisk á safnplötu Kjartans, Lalíf 1985-1987 sem kom út árið 1999.

Efni á plötum