Afmælisbörn 24. febrúar 2022

Jón Ísleifsson

Fimm afmælisbörn eru skráð á þessum degi:

Engilbert Jensen söngvari og trommuleikari er áttatíu og eins árs gamall en hann eru auðvitað þekktastur sem söngvari Hljóma, Trúbrota og Ðe lónlí blú bojs. Lög á borð við Bláu augun þín, Heim í Búðardal og Leyndarmál eru öllum kunn. Hann var einnig í öðrum sveitum sem gerðu það ágætt s.s. Saxon kvintettnum, Tilveru, Júdas, Óðmönnum og Áhöfninni á Halastjörnunni. Engilbert gaf út sólóplötuna Skyggni ágætt árið 1976.

Guðrún Á Símonar átti afmæli á þessum degi en hún lést 1988. Guðrún fæddist 1924, lærði söng fyrst hjá Sigurði Birkis en fór síðan til Bretlands til framhaldnáms. Hún átti eftir að syngja um heim allan en mest hér heima, hún var mikill persónuleiki og kattavinur, og eftir hana liggja fjölmargar upptökur og plötur með söng hennar. Enn heyrast um hver jól lög af jólaplötu hennar og Guðmundar Jónssonar.

Sigurbjörn Þorgrímsson (Bjössi Biogen) hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann lést 2011 aðeins 35 ára gamall (f. 1976) Biogen var raftónlistarmaður, starfaði einn og einnig með sveitum og tónlistarhópum eins og Weirdcore, Ajax og Seiðbandinu. Hann gekk einnig undir nöfnunum Babel og Aez.

Karl Jónatansson hefði ennfremur átt afmæli á þessum degi en hann lést 2016. Karl (f. 1924) var frá Blikalóni á Melrakkasléttu þar sem mikil harmonikkuhefð ríkir, hann byrjaði tíu ára að leika á harmonikku opinberlega, fyrst einn síns liðs en síðar með hljómsveitum. Hann gaf út fjölmargar plötur einn og með hljómsveitum sínum, einnig kenndi hann lengi á nikku og rak Almenna músíkskólann. Karl var einn hvatamanna að stofnun Félags harmonikkuunnenda og stofnaði einnig tónlistarklúbbinn Akkord sem aukinheldur var útgáfufyrirtæki hans.

Að síðustu er hér nefndur Jón Ísleifsson kunnur kórstjórnandi og söngkennari hér fyrrum. Jón var fæddur þennan dag árið 1903, kenndi lengi söng víða m.a. við Miðbæjarskólann, Samvinnuskólann, Kvennaskólann og Iðnskólann og stjórnaði kórum eins og Karlakór SVR, karlakórnum Þröstum, Unglingasöngsveit Dómkirkjunnar, Karlakór Iðnskólans og Drengjakór Reykjavíkur svo fáein dæmi séu nefnd, hann stofnaði jafnframt nokkra kóra og starfaði um tíma sem söngmálastjóri þjóðkirkjunnar. Hann lést árið 1992.

Vissir þú að hljómsveitin U3 project sem starfaði á tíunda áratug síðustu aldar sérhæfði sig í tónlist U2?