Karl Jónatansson (1924-2016)

Karl Jónatansson

Karl Jónatansson á yngri árum

Harmonikkuleikarinn góðkunni Karl Jónatansson skipar sér meðal fremstu harmonikkuleikara íslenskrar tónlistarsögu og telst auk þess einna fremstur þeirra sem hafa haldið hljóðfærinu á lofti hérlendis með kennslu og ekki síður með framgöngu sinni og komu að félagsmálum harmonikkuleikara en hann hefur komið að stofnun nokkurra félaga tengdum harmonikkutónlistinni.

Karl fæddist á Blikalóni norður á Melrakkasléttu 1924 en fluttist ungur í Eyjafjörðinn þar sem hann bjó fram á fullorðinsár. Hann var aðeins átta ára gamall búinn að eignast harmonikku og ekki liðu mörg ár áður en hann hafði spilað á sínu fyrsta balli en þá hafði hann ekki náð ellefu ára aldri. Karl var að mestu sjálflærður á hljóðfærið en naut einhverrar leiðsagnar hjá bræðrunum Jóhanni og Þorsteini Jósefssonum frá Ormarslóni á Sléttu, kunnum harmonikkuleikurum.

Hann var einungis sextán ára þegar hann var fastráðinn í spilamennsku á hóteli á Siglufirði og næsta sumar á Akureyri en það sumar (1941) eignaðist hann sinn fyrsta saxófón sem hann kenndi sér sjálfur á.

Karl myndaði sína fyrstu hljómsveit sem lék á nýstofnuðu Hótel Norðurlandi á Akureyri 1943, ekki er kunnugt hverjir skipuðu þá sveit með honum en þeir voru allir ungir að árum og var Karl sá eini sem hélt áfram í tónlistinni. Karl lék einnig með Hljómsveit Jóhannesar Þorsteinssonar nyrðra áður en hann flutti suður 1945.

Næstu árin bjó Karl á ýmsum stöðum sunnanlands, s.s. á Reykjavíkursvæðinu, í Hveragerði og Keflavík, og starfrækti hljómsveitir undir eigin nafni með hléum, hann lék ennfremur með Hljómsveit Baldurs Kristjánssonar og um haustið 1951 hóf hann kennslu á harmonikku en það átti hann eftir að gera meira og minna næstu áratugina en hann hafði lært tónfræði hjá dr. Victor Urbancic. Um miðjan sjötta áratuginn var Karl síðan farinn að annast harmonikkuþætti í Ríkisútvarpinu.

Meðal annarra starfa Karls á þessum árum má nefna að hann stjórnaði Karlakór Miðneshrepps á Suðurnesjunum.

Hljómsveit Karls Jónatanssonar 1947

Hljómsveit Karls Jónatanssonar 1947

Hljómsveit Karls, sem um þetta leyti kallaðist Kvintett Karls Jónatanssonar gaf út tveggja laga plötu haustið 1954 en það var þá í fyrsta sinn sem harmonikkuleikur hans heyrðist á hljómplötu, en fleiri plötur áttu eftir að koma út undir merkjum hljómsveitar hans, sem gekk reyndar undir fleiri nöfnum s.s. Dixie sextett.

Karl samdi tónlist og vann hann til verðlauna í dægurlagakeppni SKT 1961, en 1955 hafði hann komið að stofnun Félags íslenskra dægurlagahöfunda ásamt fleirum og var hann í fyrstu stjórn félagsins. Og Karl kom að fjölmörgum slíkum verkefnum, árið 1960 var hann einn þeirra sem stofnaði Lúðrasveit Kópavogs og var hann fyrsti stjórnandi þeirrar sveitar.

Karl stofnaði tónlistarklúbbinn Létta tóna 1967, stýrði þar fimmtán manna stórsveit, og hafði áður stofnað og starfrækt eigin tónlistarskóla, Almenna músíkskólann, þetta sama ár (1967) flutti Karl til Danmerkur.

Í Danmörku bjó Karl um fimm ára skeið, rak þar tónlistarskóla líklega bæði í Hróarskeldu og Kaupmannahöfn, en um áramótin 1970-71 bauðst honum að taka við stjórn tónlistarskóla á Egilsstöðum og flutti þangað. Þegar hann flutti síðan aftur á höfuðborgarsvæðið sumarið 1972, endurreisti hann Almenna músíkskólann.

Karl Jónatansson 1974

Karl Jónatansson 1974

Karl var síður en svo hættur brautryðjendastarfi sínu í þágu tónlistar, 1975 stofnaði hann útgáfufyrirtækið Akkord ásamt Jónatani syni sínum, en það fyrirtæki annaðist útgáfustarfsemi af ýmsu tagi, einkum á nótum og hljómplötum en einnig starfrækti fyrirtækið hljóðver og tónlistarklúbb sem m.a. hélt utan um tónlistarviðburðinn Hátíð harmoníkunnar, Akkord merkið sameinaðist smám saman Almenna músíkskólanum sem starfaði allt fram á miðjan fyrsta áratug tuttugustu og fyrstu aldarinnar.

Haustið 1977 fór Karl á bernskuslóðir þegar hann var ráðinn skólastjóri tónlistarskólans á Raufarhöfn. Þar starfaði hann í tvo vetur en fluttist að því loknu til Akureyrar þar sem hann ílengdist í nokkur ár. Þar kom hann til að mynda að leikhústónlist hjá Leikfélagi Akureyrar, starfrækti þar auðvitað hljómsveit, stofnaði ásamt fleirum Félag harmonikkuunnenda í Eyjafirði og lék á plötu þess félagsskapar, sem kom út 1980. Og Karl var hvergi nærri hættur starfi sínu við að efla og gera veg harmonikkunnar sem mestan en hann kom að stofnun Landsambands íslenskra harmonikkuleikara árið 1981 og var fyrsti formaður þess félagsskapar.

Karl flutti aftur suður til Reykjavíkur sumarið 1984 og tók enn til við ýmis störf tengd harmonikkugeiranum, hann stofnaði ásamt fleirum Harmoníkufélag Reykjavíkur, stýrði hljómsveit innan Félags harmonikkuunnenda, stofnaði skemmtiklúbbinn Gömlu góðu dagar, kenndi sem fyrr á harmonikku og starfrækti áfram útgáfufyrirtækið.

Hann var ennfremur áfram með sveitir undir eigin nafni en einnig hljómsveitir undir nöfnum eins og Neistar, Perlubandið og Stórsveit Karls Jónatanssonar, hugsanlega var þarna þó um sömu sveitirnar að einhverju leyti að ræða. Karl hefur einnig alla tíð verið duglegur að skemmta í smærri veislum, ýmist einn eða með einn til tvo með sér. Meðal annarra og hliðartengdra verkefna Karls má síðan nefna kvikmyndahlutverk hans sem iðulega hafa haft harmonikkutengingu.

Karl Jónatansson áttræður

Forsíða Harmonikublaðsins þegar Karl varð áttræður 2004

Sem fyrr segir kom plata út með Kvintett Karls Jónatanssonar á sjötta áratugnum, sú plata var síðar endurútgefin og reyndar einnig bætt að efni, og einnig kom út plata á Akureyrar-árum Karls þar sem hljómsveit hans og Karlakór Akureyrar leiddu saman hesta sína. Harmonikkuleik hans er síðan ennfremur að finna á plötum Félags harmonikuunnenda og á ýmsum harmonikkutengdum safnplötum.

Karl hefur aukinheldur gefið út plötur undir eigin nafni, 1991 kom til dæmis út snældan Neistaflug en þar leikur hljómsveit hans, Neistar. Neistaflug var síðar endurútgefin á geislaplötu 1996. Ári síðar (1997) kom út önnur sólóplata Karls, Lillý. Sú plata hafði auk nýs efnis að geyma lög sem áður höfðu komið út á litlum plötum. Lillý fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu.

Karl kenndi lengi vel fram á efri ár á harmonikkuna og kom aukinheldur fram á hvers kyns skemmtunum og uppákomum með hljóðfæri sitt en þessi slyngi harmonikkuleikari hefur fyrir löngu síðan skipað sér meðal þeirra bestu í sínu fagi hérlendis, og meðal viðurkenninga sem hann hefur hlotið má nefna heiðursfélagstitill hjá Harmoníkufélagi Reykjavíkur og Sambands íslenskra harmonikuunnenda.

Karl lést í byrjun árs 2016

Efni á plötum