Afmælisbörn 25. febrúar 2022

Andri Örn Clausen

Á þessum degi eru fimm afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:

Þorsteinn Eggertsson textaskáld, teiknari og tónlistarmaður á stórafmæli en hann er áttræður í dag, þekktastur er hann fyrir textagerð sína, einkum frá áttunda áratug síðustu aldar. Hann samdi ógrynni dægurlagatexta sem flestir þekkja enn í dag en þar má nefna Slappaðu af, Ég elska alla og Er hann birtist, sem eru auðvitað bara pínulítið sýnishorn af því sem hann hefur samið. Þorsteinn lærði teikningu í Danmörku og var klárlega einn af fyrstu plötuumslagahönnuðum landsins en hann var einnig söngvar í mörgum hljómsveitum um 1960, s.s. KK sextett, Neo kvartettnum og Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar svo dæmi séu tekin.

Jón Ólafsson (hinn góði) hljómborðsleikari, söngvari og lagahöfundur er fimmtíu og níu ára en hann hefur víða poppað upp á sínum langa tónlistarferli. Hann hafði verið í fjölmörgum sveitum áður en hann gerði garðinn frægan í böndum eins og Possibillies, Sálinni hans Jóns míns, Bítlavinafélaginu, Fjallkonunni og Nýdanskri en hann hefur einnig fengist við þáttagerð í útvarpi og sjónvarpi frá því um miðjan níunda áratuginn.

Þá á Arnar Halldórsson annar helmingur The Boys tvíeykisins fertugs afmæli í dag en margir muna eftir þeim bræðrum sem slógu í gegn kornungir með gamla (og nýrri) slagara hér á landi, en aðallega þó í Noregi þar sem þeir bjuggu á sínum tíma. Arnar nam síðar grafíska hönnun og hefur lítið starfað við tónlist síðustu árin, hann var þó í hljómsveitinni Spinoza á sínum tíma.

Sigríður Níelsdóttir tónlistarkona með meiru átt ennfremur afmæli á þessum degi en hún lést árið 2011. Hún fæddist 1930, samdi eitthvað af lögum í Brasilíu þar sem hún bjó lengi en gerði tónlistina ekki að alvöru áhugamáli fyrr en hún var komin yfir sjötugt. Þá komu plöturnar frá henni á færibandi en tónlistina lék hún sjálf og gaf út í litlu upplagi en 12 tónar dreifðu. Þegar Sigríður lést hafði hún á tíu ára tímabili gefið út um sextíu plötur með rétt tæplega sjö hundruð lögum, aðallega frumsömdum. Heimildamyndin Amma Lo-fi var gerð um Sigríði og vakti hún mikla athygli.

Að síðustu er hér nefndur Andri Örn Clausen (1954-2002) sem var aðalsprauta hljómsveitarinnar Andrew þar sem hann var söngvari og gítarleikari en sveitin gaf út plötuna Woops árið 1974. Andri var einnig í hljómsveitum eins og Basil fursta, Hljómsveit Guðmundar Sigurjónssonar og Fríðu sársauka en hann söng ennfremur inn á fáeinar plötur s.s. með tónlistinni úr söngleiknum Gretti.

Vissir þú að Jón Kr. Ólafsson söngvari frá Bíldudal sem söng lagið Ég er frjáls, hefur rekið tónlistarsafnið Melódíur minninganna til fjölda ára?