Smárakvartettinn í Reykjavík (1951-56 / 1986)

Smárakvartettinn í Reykjavík ásamt Carl Billich

Smárakvartettinn í Reykjavík starfaði um fimm ára skeið en um sama leyti hafði sams konar kvartett verið starfandi á Akureyri um árabil undir sama nafni, aldrei kom þó til neins konar árekstra af því er virðist vegna nafngiftarinnar en kvartettarnir tveir sendu frá sér plötur um svipað leyti um miðjan sjötta áratuginn.

Upphaf Smárakvartettsins í Reykjavík má rekja til þess að nokkrir háskólanemar tóku sig til og mynduðu söngkvartett haustið 1951 en hann var svo fenginn fljótlega á nýju ári 1952 til að syngja á árshátíð læknanema við læknadeild Háskóla Íslands. Þetta voru þeir Sigmundur R. Helgason sem söng fyrsta tenór, Halldór Sigurgeirsson annar tenór, Guðmundur Ólafsson fyrsti bassi og Jón Haraldsson annar bassi, þeir fjórir skipuðu Smárakvartettinn alla tíð.

Smárakvartettinn hlaut góðar viðtökur á árshátíð læknanemanna og fljótlega eftir það sungu þeir í útvarpsþætti sem var á vegum Carls Billich, sem svo tók þá upp á sína arma, þjálfaði þá, útsetti fyrir þá og stjórnaði auk þess að annast undirleik hjá kvartettnum á tónleikum. Ekki liggur fyrir hver eða hvort einhvern lék undir söng þeirra á læknanema árshátíðinni og í útvarpsþættinum.

Smárakvartettinn á ferðalagi

Smárakvartettinn varð strax þekktur eftir söng sinn í útvarpinu og um haustið 1952 kom kvartettinn fram í fyrsta sinn opinberlega fyrir sjónum almennings þegar þeir félagar sungu á tónleikum sem Djassklúbbur Íslands stóð fyrir í Austurbæjarbíói, þar sungu þeir við undirleik hljómsveitar undir stjórn Eyþórs Þorlákssonar. Í kjölfarið sungu þeir heilmikið á tónleikum ásamt söngkonunni Ingibjörgu Þorbergs en Carl Billich var jafnan undirleikari þeirra, þeir urðu eftirsóttir á hvers kyns söngtengdum skemmtunum s.s. árshátíðum, héraðmótum og skemmtidagskrám en einnig miðnæturtónleikum t.d. á vegum SKT í Austurbæjarbíó o.fl. en kvartettinn var eingöngu að skemmta á þeim tíma í Reykjavík og næsta nágrenni.

Fyrsta platan með söng Smárakvartettsins í Reykjavík kom út árið 1953 en henni deildu þeir með Ingibjörgu Þorbergs, platan hafði að geyma lögin Hríslan og lækurinn / Játning (e. Sigfús Halldórsson) og var gefin út af Fálkanum. Fyrrnefnda lagið var eftir tónskáldið Inga T. Lárusson og var fyrsta lag hans sem gefið var út á plötu.

Auglýsing

Árið 1954 kom út plata með kvartettnum einum, Baujuvaktin / Fossarnir en sú var á vegum Hljóðfæraverslunar Sigríðar Helgadóttur, allar 78 snúninga plötur Smárakvartettsins eftir það komu út á vegum þeirrar útgáfu en þær voru fjölmargar á næstu tveimur árum.  Þetta voru tveggja plöturnar Eyjan hvíta / Lofleiðavalsinn, Rósir og vín / Selja litla, Ég veit að þú kemur / Þegar hljótt eru í húmi nætur og Að lífið sé skjálfandi / Kærleiksóðurinn, en auk þess þrjár plötur sem þeir sungu með Öddu Örnólfs þar sem Ólafur Briem kom jafnframt við sögu á einni. Plöturnar seldust allar ágætlega og naut Smárakvartettinn mikilla vinsælda á þeim tíma.

Sumarið 1956 hleypti Smárakvartettinn heimdraganum og fór í sína fyrstu söngför út á land þegar kvartettinn lagði í langt og strangt söngferðalag um norðan- og austanvert landið, söng þá á tónleikum á Blönduósi, Sauðárkróki, Siglufirði, Akureyri, Húsavík, í Skjólbrekku í Mývatnssveit og á Raufarhöfn og hugsanlega víðar, þá komu þeir við á Akranesi á bakaleiðinni og munu jafnframt hafa sungið heilmikið sunnan heiðar einnig það sumar. Þrátt fyrir miklar vinsældir á þessum tíma hætti kvartettinn störfum um haustið en þá var einn meðlima hans á leið í nám erlendis og ákváðu hinir þá fremur að láta samstarfinu lokið en að taka inn nýjan söngmann. Þannig lauk sögu Smárakvartettsins í Reykjavík með fjölsóttum kveðjutónleikum sem haldnir voru um haustið í Tjarnarbíói og svo aukatónleikum í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll. Þá höfðu þeir sungið á annað hundrað skipta opinberlega á tónleikum. Um sama leyti og kvartettinn hætti störfum sungu þeir sjö lög í Ríkisútvarpinu sem leikin voru í sérstökum þætti um þá félaga.

Smárakvartettinn í Reykjavík 1986

Smárakvartettinn í Reykjavík gleymdist smám saman þrátt fyrir að nokkuð heyrðist til hans í útvarpi fyrstu árin eftir að hann hætti, 45 snúninga plöturnar voru að koma til sögunnar um miðjan sjötta áratuginn og 78 snúninga formið hvarf fljótlega eftir það en plötur kvartettsins voru allar á því formati, tónlist þeirra félaga varð því ófáanleg eftir fáein ár og það var ekki fyrr en árið 1986 að félagarnir fjórir, Sigmundur, Halldór, Guðmundur og Jón stóðu sjálfir fyrir því að safna saman gömlum upptökum í því skyni að endurútgefa efnið. Þeir höfðu upp úr krafsinu tuttugu og sjö lög, tólf þeirra höfðu komið út áður á plötum en fimmtán að auki fundust í segulbandasafni Ríkisútvarpsins. Sá fjöldi (27 lög) var of mikill til að hafa á einni breiðskífu en ekki nógu mörg til að hún gæti verið tvöföld þannig að þeir félagar brugðu á það ráð að æfa upp kvartettinn á nýjan leik og hljóðrita sjö lög til viðbótar, og fengu Ólaf Gauk Þórhallsson til að starfa með sér í því sem útsetjari en Reynir Jónasson sá um að æfa hópinn, stjórna þeim og annast undirleikinn. Útkoman var tvöfalt albúm, Smárakvartettinn í Reykjavík 1951-1986 sem þeir gáfu út sjálfir undir merkjum Smárakvartettsins í Reykjavík, hún kom einnig út á kassettu. Platan hlaut góða dóma í DV og ágæta í Morgunblaðinu en eldra efnið þótti bera af á henni.

Árið 1996 kom svo út safnplata á vegum Japis undir sama titli, Smárakvartettinn í Reykjavík 1951-1986 en sú hafði einvörðungu að geyma eldri upptökurnar, það var í fyrsta sinn sem söng kvartettsins mátti heyra á geislaplötu. Hún fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu.

Söng Smárakvartettsins má heyra á fáeinum safnplötum sem komið hafa út á síðastliðnum áratugum, t.a.m. á plötunum Svona var það 1955 og 1956 (2005), Gömlu dagana gefðu mér (2013) og Vinsælir dægurlagasöngvarar (1999) sem Sigurjón Samúelsson á Hrafnabjörgum gaf út.

Efni á plötum