Skagfirska söngsveitin í Reykjavík (1970-2014)

Skagfirzka söngsveitin í Reykjavík 1972

Skagfirska söngsveitin í Reykjavík var lengi vel stærstur átthagafélagskóra á Íslandi enda hefur sönglíf alltaf verið blómlegt í Skagafirðinum. Kórinn var að lokum lagður niður og var þá Skagfirðingum heldur farið að fækka í honum.

Skagfirska söngsveitin, sem var blandaður kór var stofnaður af áhugafólki um söng innan Skagfirðingafélagsins í Reykjavík haustið 1970 en félagið innihélt þá um fimm hundruð manns. Tilefnið var aldar afmæli Sauðárkróks sem þá stóð fyrir dyrum og að kórinn myndi syngja á afmælishátíð þeirri sem framundan var, markmið hans var ennfremur að halda nafni skagfirskra tónskálda á lofti með því að syngja lög þeirra og svo fór að mörg þeirra áttu eftir að tileinka kórnum verk sín. Fyrstu árin var nafn Skagfirzku söngsveitarinnar ritað með Z-u að hætti stafsetningarreglna þeirra tíma en S-ið tók smám saman yfir.

Stofnmeðlimir kórsins voru um 30 talsins og kom hann fyrst fram á Skagfirðingamóti á Hótel Sögu snemma vors 1971 en áðurnefnd afmælishátíð var um sumarið. Hlutfall söngfólks var með þeim hætti að langflestir voru brottfluttir Skagfirðingar þótt einstöku „utanbæjarfólk“ slæddist með, hlutfall þeirra síðarnefndu átti eftir að hækka verulega síðar.

Snæbjörg Snæbjarnardóttir var fyrsti stjórnandi kórsins og hún átti eftir að stjórna honum um árabil, undir hennar stjórn söng hann mjög reglulega á samkomum Skagfirðingafélagsins og fór reyndar alla tíð einnig oft norður í Skagafjörð til að syngja í átthögunum, þá fór hann stundum einnig mun víðar um norðanvert landið í söngferðalögum. Tónleikaferðir sunnanlands voru jafnframt oft farnar en mest söng kórinn þó á höfuðborgarsvæðinu, þ.á.m. voru nokkrar fastar uppákomur eins og vortónleikar.

Árið 1973 kom fyrsta platan út með Skagfirsku söngsveitinni í Reykjavík, hún fékk titilinn Skín við sólu: Fimmtán skagfirzkir söngvar og hafði að geyma sönglög eftir þrjú skagfirsk tónskáld, Jón Björnsson, Eyþór Stefánsson og Pétur Sigurðsson.

Næstu árin fór vegur kórinn vaxandi og yfirleitt voru um 50 til 60 manns í honum, sá fjöldi gat þó farið stundum upp í 70 en gott orð fór af honum og var hann yfirleitt talinn meðal fremstu kóra hér á landi þótt ekki væri það endilega bara í flokki átthagakóra. Þannig söng kórinn verk af ýmsum toga, bæði veraldleg og kirkjuleg söngverk frá ýmsum tímum, íslensk og erlend, vorið 1978 réðst hann m.a. í flutning á kantötunni Olivet to Calvary e. James H. Maunder ásamt einsöngvurum við orgelleik á tónleikum í Fíladelfíukirkjunni en það verk hafði aldrei verið flutt hérlendis. Þá urðu söngferðir til útlanda einnig partur af tónleikahaldi kórsins, fyrst til Skotlands árið 1979 en svo til fjölmargra annarra landa s.s. á Íslendingaslóðir í Kanada, til Spánar, Þýskalands, Ítalíu, Írlands og víðar.

Skagfirska söngsveitin 1980

Árið 1980 komu út tvær plötur með söng kórsins, fyrst platan Heill þér Drangey sem kom út síðsumars og hafði að geyma upptökur með íslenskum og erlendum kirkulegum verkum frá tónleikum í Háteigskirkju 1975, þar kom einnig við sögu barnakór sem stofnaður hafði verið í nafni kórsins. Síðari platan kom út fyrir jólin í tilefni af tíu ára afmæli kórsins og hét Létt í röðum, sú plata var öllu léttari að efni og geymdi annars vegar íslensk sönglög og hins vegar kóra úr óperum.

Vorið 1984 var komið að leiðarlokum hjá Snæbjörgu Snæbjarnardóttur sem þá hafði stjórnað Skagfirsku söngsveitinni í fjórtán ár við góðan orðstír en við starfinu tók Björgvin Þ. Valdimarsson. Einhverjar áherslubreytingar urðu við það á kórastarfinu og um tíma að minnsta kosti minnkaði vægi undirleikara en Ólafur Vignir Albertsson hafði þá alla tíð verið undirleikari kórsins.

Um það leyti var ljóst að kórinn hafði elst nokkuð á þeim fimmtán árum sem hann hafði verið starfandi og var því stofnaður nýr kór innan söngsveitarinnar, Söngsveitin Drangey sem voru þá eldri félagar kórsins. Við þetta fækkaði nokkuð í Skagfirsku söngsveitinni í bili og meðal aldurinn lækkaði töluvert, kórinn átti þó eftir að ná fyrri stærð aftur fljótlega.

Árið 1987 kom næsta plata kórsins út, hún hét Söngurinn göfgar og glæðir og var aðallega tileinkum íslenskum sönglögum, þar af nokkrum eftir kórstjórnandann. Á plötunni komu jafnframt fimm einsöngvarar við sögu en það var nokkru meira en áður hafði verið og til marks um áherslubreytingar Björgvins. Platan var hljóðrituð í félagsheimilinu Hlégarði og fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu.

Söngflokkur var stofnaður innan Skagfirsku söngsveitarinnar og var nú söngstarfið orðið töluvert öflugt innan Skagfirðingafélagsins, sá söngflokkur hlaut nafnið Veirurnar og starfar ennþá. En enn var unnið að útgáfum platna og árið 1990 kom Ljómar heimur út en hún var fimmta plata Skagfirsku söngsveitarinnar. Platan hafði einvörðungu að geyma íslensk lög og var Björgvin stjórnandi höfundur fimm laganna af þeim sextán sem á henni voru, platan var hljóðrituð í Hafnarborg og komu nú átta einsöngvarar við sögu, flestir úr röðum kórfélaga.

Kveðja heimanað hét næsta plata Skagfirsku söngsveitarinnar en hún kom út árið 1994, hér var brotið blað í sögu kórsins með þeim hætti að hér var á ferð fyrsti geisladiskur hans. Lögin á plötunni voru því fleiri en fyrr eða tuttugu talsins og af þeim voru sjö eftir Björgvin, upptökurnar voru frá ýmsum tímum og komu tveir undirleikarar við sögu þeirra, Ólafur Vignir og Violeta Smid. Platan var gefin út í minningu fyrsta formanns kórsins sem þá var látinn, Gunnar Björnsson. Þessi plata seldist óvenju vel eða yfir 2000 eintökum og þurfti því að framleiða auka upplög af henni.

Skagfirska söngsveitin 1998

Fimm ár liðu þar til næsta plata leit dagsins ljós, hún bar titilinn Nú ljómar vorsins ljós og kom út 1999. Á henni var að finna valið efni sem flutt hafði verið á vortónleikum kórsins en platan var hljóðrituð í Fella- og Hólakirkju á árunum 1996, 97 og 99. Sem fyrr var Björgvin fremstur í flokki lagahöfunda en hann samdi mörg þeirra, platan fékk góða dóma í Morgunblaðinu.

Skagfirska söngsveitin hafði hægt um sig næstu árin hvað plötuútgáfu varðar en kom þó við sögu á plötum annarra, annars vegar á plötu sem hafði að geyma lög Jóns Björnssonar frá Hafsteinsstöðum og hins vegar með lögum Björgvins kórstjóra. En það var svo árið 2006 sem áttunda plata kórsins leit dagsins ljós, hún heitir Sönggleði og var nokkuð léttari en fyrri plötur kórsins og hafði m.a. að geyma lagasyrpur, tengsl kórsins við skagfirsk tónskáld voru nú orðin stopulli enda bar kórinn varla nafn sitt með réttu lengur, skagfirska söngblóðið hafði þynnst út og blandast öðru.

Kórinn var þó fjölmennur ennþá, með um fimmtíu manns innanborðs og tók árið 2008 þátt í verkefni með Óperukórnum, einsöngvurum og þrjátíu manna sinfóníuhljómsveit þar sem tónverkin Solveig á Miklabæ og Jörð eftir Björgvin kórstjóra við texta Bjarna Stefáns Konráðssonar eins meðlima kórsins, voru flutt á tónleikum. Sú tónleika uppfærsla var svo gefin út en ekki er ljóst hvort um opinbera útgáfu er að ræða á verkunum.

Þetta var síðasta verkefni Björgvins og reyndar síðasta plata kórsins því hann hætti um það leyti, auglýst var eftir nýjum kórstjórnanda og tók hin ungverska Renata Ivan við kórstjórninni. Hún stjórnaði kórnum næstu árin, hann tók þátt í uppfærslu á Carmina Burana fyrir norðan og einnig var fyrirhuguð tónleikauppfærsla á Requiem e. Mozart en ekki er ljóst hvort af henni varð. Lítið lífsmark var með kórnum árið 2012 og næstu árin á eftir, auglýst var ítrekað eftir söngfólki en svo virðist sem kórinn hafi að lokum lognast alveg útaf árið 2014 en þá hafði fækkað mjög í honum síðustu árin. Þar með lauk glæstri sögu Skagfirsku söngsveitarinnar í Reykjavík, kórinn söng á hundruðum tónleikum hér heima og erlendis á þeim ríflega fjörutíu árum sem hann starfaði og á þeim tíma komu út níu plötur, sem er líklega einsdæmi með kór átthagafélags.

Efni á plötum