Sonus futurae (1981-87)

Sonus futurae

Sonus futurae er almennt talin fyrsta hreinræktaða tölvupoppsveit íslenskrar tónlistarsögu ásamt Mogo homo en sveitin starfaði mun lengur og sendi frá sér plötu, sem Mogo homo gerði ekki.

Sonus futurae var stofnuð á Seltjarnarnesi um jólin 1981 og voru meðlimir sveitarinnar Kristinn Rúnar Þórisson söngvari, gítar- og hljóðgervilsleikari, Þorsteinn Jónsson hljóðgervilsleikari og Jón Gústafsson söngvari sem einnig var titlaður tæknistjóri en hann sá um segulbönd, ljós, reyk og textagerð. Hið latneska nafn sveitarinnar, Sonus futurae (hljómur framtíðarinnar) vafðist fyrir mörgum og oft var það misritað í fjölmiðlum sem Sonus future.

Þeir þremenningar voru allir í Menntaskólanum í Reykjavík og þar kom sveitin fyrst fram snemma árs 1982. Fljótlega lék Sonus futurae á tónleikum í Óðali og í kjölfarið lék hún heilmikið í skólum um vorið og svo á almennum tónleikum um sumarið, yfirleitt ásamt öðrum hljómsveitum. Þá var hún jaframt ein af fjölmörgum sveitum sem lék síðsumars á Melarokki og vakti þar töluverða athygli. Sveitin var langt frá því að teljast til pönk- eða nýbylgju en kom oft fram ásamt sveitum í þeim geira tónlistarinnar en þá voru sveitir eins og Q4U að byrja að prófa sig áfram í tölvupoppinu eða nýrómantíkinni eins og tónlistin var oft kölluð.

Sonus futurae 1982

Um haustið 1982 kom út sex laga plata með sveitinni undir titlinum Þeir sletta skyrinu…sem eiga það, Hljóðriti gaf plötuna út en hún hafði verið hljóðrituð í samnefndu hljóðveri í Hafnarfirði. Platan hlaut góðar viðtökur og til að mynda mjög góða dóma í Morgunblaðinu og ágæta í DV, Tímanum og Þjóðviljanum. Þá vakti mikla athygli þegar myndband með sveitinni var sýnt í sjónvarpsþættinum Skonrokki en það var í fyrsta sinn sem íslenskt myndband var þar sýnt og reyndar fyrsta íslenska tónlistarmyndbandið sem sýnt var í Ríkissjónvarpinu og var ekki gert innan veggja þess. Tvö laganna á plötunni nutu nokkurra vinsælda, Myndbandið og Skyr með rjóma. Sveitin spilaði mikið fyrir jólin í því skyni að kynna sig og plötuna, og var hún m.a. meðal þeirra sveita sem tóku þátt í maraþontónleikum SATT þar sem heimsmet var sett í lengd tónleika, um það leyti voru þeir félagar þegar teknir til við að vinna nýtt efni.

Hljótt var um Sonus futurae á nýju ári og síðsumars 1983 birtust þær fréttir að Jón væri hættur í sveitinni en í hans stað væru komnir tveir nýir liðsmenn, þeir Ólafur Héðinn Friðjónsson og Hlynur Halldórsson en þeir voru báðir hljóðgervlamenn og sveitin því með „Kraftwerk-yfirbragð“ og Kristin sem söngvara, Jón birtist hins vegar með sólóplötu um haustið og fór aðrar leiðir í tónlistarsköpun sinni áður en hann sneri sér að öðrum hugðarefnum.

Sonus futurae

Um haustið 1983 fór kvartettinn eitthvað um skóla höfuðborgarsvæðisins með tónleikahaldi ásamt Pax Vobis sem þá var nýtekin til starfa, einnig lék sveitin eitthvað á skemmtistöðum borgarinnar fyrir jólin en lét lítið fara fyrir sér í framhaldinu. Reyndar komu þeir Þorsteinn og Kristinn við sögu á plötu Sigurðar Sigurjónssonar leikara um Bakkabræður en þeir félagar sáu um tónlist og umhverfishljóð á þeirri plötu.

Næsta vor (1984) voru nýju meðlimir Sonus futurae horfnir á braut og þeir Þorsteinn og Kristinn orðnir að dúett. Lítið heyrðist til sveitarinnar og lék hún ekkert opinberlega en þeir voru áfram starfandi, Þorsteinn var um tíma í Pax Vobis en að öðru leyti höfðu þeir sig lítið í frammi, þeir sendu þó frá sér lag (Boy you must be crazy) á safnplötunni Stjörnur fyrir jólin.

Þeir Þorsteinn og Kristinn héldu áfram að vinna saman tónlist þótt sveitin sem slík væri ekki virk á tónleikasviðinu en vorið 1986 urðu þeir fyrir því óláni að í innbroti í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi þar sem þeir höfðu vinnuaðstöðu, var m.a. stolið frá þeim tölvudiskettum sem höfðu að geyma tónlist sveitarinnar. Enn áttu þeir lag á safnplötunni Vímulaus æska haustið 1987 (Gefðu mér gaum) en svo virðist sem sveitin hafi þá verið endanlega hætt.

Þorsteinn vann nokkuð við tónlist í framhaldinu, lék m.a. inn á nokkrar plötur og var í hljómsveitinni Flass en Kristinn var minna viðloðandi tónlist, hann menntaði sig í tölvufræðum og varð doktor í gervigreind en birtist árið 2020 með sólóplötu.

Efni á plötum