Afmælisbörn 31. maí 2022

Magnús Jónsson

Sex tónlistartengd afmælisbörn koma við sögu hjá Glatkistunni í dag:

Kjartan Valdemarsson píanó- og hljómborðsleikari er fimmtíu og fimm ára gamall í dag. Kjartan er fjölhæfur tónlistarmaður og hefur leikið á fjölda poppplatna allt frá árinu 1984 þegar fyrst heyrðist til hans á safnplötum, hann hefur verið í mörgum þekktum hljómsveitum eins og Todmobile en í seinni tíð mestmegnis starfað í djasstengdum tríóum og kvartettum.

Ingólfur Þórarinsson (Ingó Veðurguð) frá Selfossi er þrjátíu og sex ára gamall. Ingólfur sem bæði syngur, leikur á gítar og semur tónlist náði miklum vinsældum með hljómsveit sinni Veðurguðunum fyrir nokkru síðan en hefur á síðari árum starfað meira einn, bæði sem trúbador og við dagskrárgerð í sjónvarpið. Hann hefur gefið út nokkuð af sólóefni.

Ýtu-Viggó (Viggó Brynjólfsson) ýtustjóri og harmonikkuleikari (f. 1926) hefði átt afmæli á þessum degi en hann lést árið 2021. Viggó sem var vestan af Ströndum, lék á sínum yngri árum á dansleikjum í heimabyggð og reyndar langt fram eftir aldri og sendi frá sér árið 2010 harmonikkuplötuna Í tónum, þá áttatíu og fjögurra ára gamall.

Loftur S. Loftsson tónlistarmaður er fjörutíu og sjö ára gamall í dag. Loftur hefur starfað með nokkrum hljómsveitum, leikið á bassa og sungið með sveitum eins og Shockmonkey, Dys, Dætrasonum, Hrauni, Sjáumst í sundi og 5tu herdeildinni en hefur einnig sungið inn á fáeinar plötur.

Magnús Jónsson óperusöngvari (f. 1928) átti þennan afmælisdag en hann lést 2002. Magnús sem einnig var þekktur millivegalengdahlaupari og keppti m.a. á Ólympíuleikum, nam söng hér heima, á Ítalíu og Svíþjóð en starfaði lengst í Danmörku sem óperusöngvari áður en hann kom heim til Íslands til starfa. Hann söng inn á nokkrar plötur hér heima og er söng hans að finna á mörgum safnplötum.

Einnig hefði Steinþór Gestsson alþingismaður frá Hæli í Hreppum átt afmæli í dag en hann lést 2005. Steinþór (f. 1913) var einn þeirra sem skipaði MA-kvartettinn á sínum tíma en kvartettinn hlaut landsfrægð fyrir söng sinn og gaf út fjöldann allan af 78 snúninga plötum á sjötta áratug síðustu aldar.

Vissir þú að geisladiskur er sælindýr (Pecten septemradiatus) af diskaætt samkvæmt orðabókinni?