Viggó Brynjólfsson (1926-2021)

Ýtu-Viggó (Viggó Brynjólfsson)

Viggó Brynjólfsson eða Ýtu-Viggó eins og hann var iðulega kallaður er hálfgerð goðsögn í heimi vegavinnu og samgangna en hann á sennilega lengstan starfsaldur allra ýtustjóra hér á landi, hann lék einnig á harmonikku og eftir hann liggur ein plata.

Viggó fæddist 1926 vestur á Ströndum og ólst þar við nokkurn áhuga á harmonikkutónlist en móðir hans lék á harmonikku á böllum fyrir vestan, faðir hans var hins vegar ekkert gefinn fyrir það eða um áhuga sonarins á nikkunni. Viggó lærði því af móður sinni helstu atriðin en var að öðru leyti sjálfmenntaður á hljóðfærið. Hann lék á dansleikjum þegar hann hafði aldur til en á slíkum böllum voru harmonikkuleikarar, yfirleitt einn eða tveir. Reyndar hefur Viggó verið að leika eitthvað á dansleikjum alla tíð þótt ekki hafi það verið mikið, t.d. á þorrablótum og slíku, hann lék til að mynda á 50 ára afmælishátíð Skagastrandar árið 1989 með eigin kvartett en þar hefur hann búið lengst af, og einnig hefur hann leikið í sjómannadagsmessum o.fl.

Viggó fór að vinna á jarðýtu árið 1947 og vann allan sinn starfsaldur og reyndar gott betur á slík tæki víðs vegar um land, lengi vel sem sjálfstæður jarðvegsverktaki, hann var að fram á nítugasta og annað aldursár árið 2017, síðast við gerð Vaðlaheiðagangna. Þá var harmonikkan yfirleitt ekki langt undan því oft var hún dregin fram í lok langs vinnudags og leikið á hana á kvöldin. Viggó sagði í blaðaviðtali eitt sinn að hann hefði um tvítugt verið táknmynd hins íslenska töffara, ýtustjóri sem spilaði á harmonikku og ekki hefði það minnkað þegar hann eignaðist líka Willys-jeppa.

Viggó sendi frá sér fimmtán laga plötu er hann var orðinn 84 ára gamall, hún heitir Í tónum og samdi Viggó sjálfur sex laganna en sonur hans tvö, hin komu annars staðar að. Hún seldist fljótlega upp, var gefin út í fimm hundruð eintökum en útgáfutónleika hélt Viggó á kántríhátíð á Skagaströnd.

Ýtu-Viggó lést árið 2021 á nítugasta og fimmta aldursári sínu.

Efni á plötum