Magnús Jónsson [1] (1928-2002)

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson óperusöngvari var um tíma einn kunnasti söngvari landsins en hann gerði garðinn frægan í Danmörku þar sem hann starfaði í um áratug á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.

Magnús fæddist í Reykjavík 1928 en var af þingeyskum tónelskum ættum og t.a.m. var náskyldur Kristjáni Jóhannssyni óperusöngvara. Hann ólst upp í Reykjavík og þótti efnilegur tenórsöngvari, svo efnilegur að faðir hans bað Árna Kristjánsson píanóleikara að meta hann sem hann og gerði og svo fór að Magnús hóf að læra hjá Pétur Á. Jónssyni óperusöngvara átján ára gamall. Magnús var jafnframt mikill íþróttamaður, æfði frjálsar íþróttir hjá KR (þar sem hann mun hafa komið fyrst fram opinberlega sem söngvari á skemmtun) og varð meðal fremstu millivegalengdahlaupara landsins, keppti í 400, 800 og 1500 metra hlaupum sem fulltrúi Íslands á Ólympíuleikunum í London 1948 og á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Brussel 1950, hann vann ennfremur einhverja Íslandsmeistaratitla á íþróttaferli sínum.

Söngurinn var þó alltaf aðalmálið hjá Magnúsi og hann lærði hjá Pétri Á. Jónssyni í þrjú ár en fyrstu opinberu tónleikarnir sem hann söng á voru einmitt tónleikar til heiðurs Pétri sextíu og fimm ára gömlum, á þessum árum söng hann einnig í Útvarpskórnum, Þjóðleikhúskórnum og hugsanlega fleiri kórum, auk þess stjórnaði hann Karlakórnum  Svönum um tíma. Þá nam Magnús einnig í Svíþjóð en aðallega á Ítalíu en hann fékk til þess styrk frá alþingi. Hann dvaldi á Ítalíu í um þrjú ár og kom síðan heim til Íslands og starfaði hér heima um tíma.

Það var svo árið 1956 sem honum bauðst að fara til Danmerkur og ráða sig við Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn og um leið að nema óperusöng og leiklist við óperuskóla sömu stofnunar. Samhliða náminu söng Magnús fjölmörg hlutverk og að náminu loknu var hann fastráðinn þar sem hann var aðal tenórsöngvari leikhússins til ársins 1966, þar söng hann hlutverk í óperum eins og La Boheme, Il trovatore, Kátu ekkjunni, Rigoletto, Grímudansleiknum og La traviata. Þá naut hann um tíma einkakennslu Stefáns Íslandi í Kaupmannahöfn. Reyndar söng Magnús víðar en í Danmörku á þessum árum, hann kom fram í óperuuppfærslum víða um lönd s.s. Noregi, Ítalíu, Bandaríkjunum, Svíþjóð og víðar.

Magnús við æfingar

Á Kaupmannahafnarárum Magnúsar kom söngur hans út á nokkrum plötum hér heima enda kom hann stöku sinnum heim til Íslands í frí og hélt þá gjarnan tónleika, fyrsta má telja plötu með tónlist úr óperettunni Í álögum þar sem þau Magnús, Guðrún Á. Símonar, Guðmundur Jónsson og Þuríður Pálsdóttir sungu ásamt kór og hljómsveit (1957), þá kom út fjögurra laga plata með söng Magnúsar á vegum Íslenzkra tóna árið 1958 og önnur fjögurra laga plata með íslenskum einsöngslögum á vegum Fálkans 1961. Árið 1965 gaf Svavar Gests út breiðskífu með Magnúsi sem hafði að geyma íslensk einsöngslög, hún bar titilinn 14 sönglög eftir 14 íslensk tónskáld þar sem Ólafur Vignir Albertsson lék með á píanóið en þeir Magnús og Ólafur Vignir áttu síðar eftir að starfa mikið saman eftir að Magnús flutti heim til Íslands. Þessi plata var síðar endurútgefin með nýju umslagi.

Þegar samningi Magnúsar við Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn lauk, af því er mörgum fannst alltof snemma, kom hann heim til Íslands, þótt atvinnumöguleikar hans hér heima væru ekki eins miklir og í Danmörku átti hann eftir að starfa við tónlistina nánast til æviloka. Reyndar starfaði hann í tuttugu ár einnig við endurskoðun hjá Reykjavíkurborg eða til ársins 1987  en samhliða því kenndi hann við Söngskólann í Reykjavík eða allt til ársins 2000, meðal nemenda hans má nefna Pál Jóhannesson, Jóhann Friðgeir Valdimarsson og Júlíus Vífil Ingvarsson.

Þá söng hann mikið á tónleikum, óperuuppfærslum og öðrum tónlistartengdum skemmtunum hér heima, áður er nefnt samstarf hans við Ólaf Vigni Albertsson píanóleikara en þeir héldu margsinnis tónleika bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Þá söng Magnús oft einsöng með kórum s.s. Karlakór Reykjavíkur og Dómkórnum svo dæmi séu nefnd, og með Sinfóníuhljómsveit Íslands o.fl. Flutning hans mátti þannig oft heyra og sjá í sjónvarpi og útvarpi. Auk þess var hann í Einsöngvarakvartettnum sem starfaði á árunum 1969 til 78 og gaf út tvær plötur við miklar vinsældir. Hann stjórnaði jafnframt Kór Átthagafélags Strandamanna um tíma.

Magnús Jónsson

Þegar Magnús greindist með astma árið 1980 dró hann sig nokkuð í hlé frá sviðsljósinu og söng sjaldnar opinberlega, hins vegar minnti hann rækilega á sig þegar hann stóð sjálfur fyrir útgáfu á tveggja plötu albúmi sem bar titilinn Magnús Jónsson syngur íslensk og ítölsk lög og óperuaríur, og kom út árið 1984. Á fyrri plötunni var að finna íslensk einsöngslög en sú síðari hafði að geyma óperuaríur og ítölsk lög, upptökurnar voru frá árinum 1964 til 84 og var Ólafur Vignir undirleikari hans. Platan seldist fljótlega upp og var endurútgefin fljótlega, hún fékk góða dóma í Morgunblaðinu.

Magnús hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín bæði á íþrótta- og tónlistarsviðinu og meðal þeirra má nefna Fálkaorðuna. Hann lést árið 2002, þá kominn á áttræðisaldur.

Auk framangreindra platna hér að ofan hefur söngur Magnúsar Jónssonar heyrst á fjölmörgum öðrum plötum, þeirra á meðal má nefna plöturnar Bláir eru dalir þín sem hafði að geyma tónlist eftir Skúla Halldórsson, Tónlist Gunnars Thoroddsen, Í birkilaut: Ísólfur Pálsson tónskáld og Söngkveðjur: Lög eftir Sigurð Ágústsson frá Birtingarholti, hann söng einnig einsöng á plötum með Karlakór Reykjavíkur og Kór Söngskólans í Reykjavík auk þess sem söng hans má heyra á safnplötum eins og Óskastundin (2002), Ég leitaði blárra blóma (1981), Fjörutíu ára söngafmæli Guðrúnar Á. Símonar (1979), Gullöld íslenskra söngvara (1962), Íslenskar söngperlur (1991) og Söngvar frá Íslandi nr. 1 og 2 (1960).

Efni á plötum