Afmælisbörn 10. október 2022

Sigurlaug Rósinkranz

Tvö tónlistartengd afmælisbörn koma við sögu Glatkistunnar í dag:

Hilmar Jensson gítarleikari er fimmtíu og sex ára gamall á þessum degi. Hilmar sem hefur síðustu árin fyrst og fremst starfað í djassgeiranum hefur gefið út nokkrar sólóplötur og með hljómsveitunum Tyft og Mógil en einnig hefur hann gefið út plötur í samstarfi við Skúla Sverrisson, Jóel Pálsson og fleiri. Áður hafði Hilmar starfað í hljómsveitum eins og The Spiders og Stjórninni en hann var einmitt einn af stofnmeðlimum síðast töldu sveitarinnar.

Þá er sópran söngkonan Sigurlaug Rósinkranz áttatíu og sjö ára gömul í dag. Sigurlaug nam hér heima og í Austurríki en vakti fyrst athygli fyrir hlutverk í Brúðkaupi Fígarós í Þjóðleikhúsinu en það vakti miklar deilur á sínum tíma. Síðar bjó hún í Svíþjóð og Bandaríkjunum þar sem hún er ennþá, en hún hefur gefið út nokkrar plötur með söng sínum.

Vissir þú að Engilbert Jensen gaf út árið 1970 bítlalagið Let it be með íslenskum texta undir titlinum Fylgdu mér?