Sigurlaug Rósinkranz (1935-)

Sigurlaug Rósinkranz

Sópran söngkonan Sigurlaug Rósinkranz verður líklega alltaf þekktust fyrir deilurnar í kringum hana er hún kornung söng stórt hlutverk í óperunni Brúðkaup Fígarós, hún átti þó ágætan söngferil í kjölfarið í Svíþjóð og Bandaríkjunum og gaf þar út nokkrar plötur m.a. með íslenskum einsöngslögum.

Sigurlaug Guðmundsdóttir fæddist haustið 1935 í Skagafirðinum en hún var dóttir rithöfundarins Guðmundar á Egilsá. Á barnsaldri spilaði hún eitthvað á harmonikku og gítar eftir eyranu og var jafnvel að semja lög sjálf en þegar hún komst á unglingsaldur lærði hún á bæði orgel og píanó áður en hún hóf söngnám, fyrst hjá Sigurði Birkis en síðan hjá Engel Lund, Einari Kristjánssyni og Stefáni Íslandi. Þá lærði hún söng í eitt ár í Stokkhólmi og eitthvað var hún Salzburg einnig á þessum árum áður en hún kom svo heim aftur og hóf að syngja með Þjóðleikhúskórnum.

Sigurlaug giftist bráðung Guðlaugi Rósinkranz Þjóðleikhússtjóra en hann var töluvert mikið eldri en hún og vakti það nokkra athygli en mesta athygli hlaut hún þó haustið 1969 þegar hún var ráðin til að syngja hlutverk greifynjunnar í óperunni Brúðkaup Fígarós e. Mozart en það var eitt stærsta hlutverk óperunnar. Margir urðu til að gagnrýna söngvaravalið enda voru nokkrar eldri söngkonur sem töldu sig geta gert tilkall til hlutverksins og vildu meina að hin unga og óreynda söngkona hefði hlotið hlutverkið fyrir það eitt að vera eiginkona Þjóðleikhússtjóra. Harðast í gagnrýninni gekk Guðrún Á. Símonar sem ritaði „gagnrýni“ í Alþýðublaðinu og fór mikinn, í kjölfarið mættust þau Guðrún og Þjóðleikhússtjóri í sjónvarpsþættinum Setið fyrir svörum þar sem hún gekk jafnvel enn harðar fram í gagnrýninni. Gagnrýnin beit lítið á söngkonuna ungu en óperan hlaut mikla athygli og aðsókn fyrir vikið og allir þekktu nafn Sigurlaugar í kjölfarið fyrir vikið.

Sigurlaug Rósinkranz

Lítið fór fyrir Sigurlaugu næstu árin og þegar Guðlaugur hætti störfum fyrir Þjóðleikhúsið fyrir aldurs sakir árið 1973 fluttu þau hjónin fljótlega til Svíþjóðar og settust að þar. Í Svíþjóð hélt Sigurlaug áfram að mennta sig í óperusöng og fór að syngja aftur opinberlega á tónleikum og óperusýningum (m.a. í Brúðkaupi Fígarós) undir nafninu Sigi Gudmundsdottir, reglulega birtust fréttir hér heima um góðar viðtökur gagnrýnenda þar og stöku sinnum kom hún hingað til Íslands til að syngja á tónleikum, í útvarpi og sjónvarpi. Þegar hún hélt tónleika hérlendis var það þó mest á Norðurlandi enda átti hún ættir að rekja þangað, hún söng þó eitt sinn á tónleikum í Hafnarfirði. Hún mun einnig hafa sungið á tónleikum í Þýskalandi, Ítalíu og jafnvel víðar í Evrópu á þessum árum.

Þegar Guðlaugur lést árið 1977 fluttist Sigurlaug ásamt tveimur börnum þeirra vestur um haf til Los Angeles í Bandaríkjunum og áfram birtust reglulega fréttaflutningar af henni vestanhafs, hún var þar m.a. í tónsmíðanámi og börn hennar voru þar einnig í tónlistarnámi en þau höfðu vakið athygli í Svíþjóð einnig, þau hafa bæði starfað sem tónlistarmenn ytra. Þess má geta að Sigurlaug var um tíma í sambúð með Jóni Páli Bjarnasyni gítarleikara í LA.

Sigurlaug söng heilmikið á tónleikum í Bandaríkjunum og þar er tónleikahaldið og -iðnaðurinn með allt öðrum hætti en í Evrópu, hún kom eitthvað fram með Sinfóníuhljómsveit Los Angeles og frétt birtist í íslenskum fjölmiðlum þegar hún kom fram á Dodgers stadium í LA fyrir framan sextíu þúsund áhorfendur í tengslum við leik heimaliðsins, hafnaboltaliðsins Los Angeles Dodgers.

Sigurlaug ásamt Placido Domingo

Sigurlaug hafði um árabil verið að vinna að plötuútgáfu í Svíþjóð með íslenskum og sænskum lögum, m.a. með eigin ljóðaþýðingum en af einhverjum ástæðum frestaðist sú útgáfa alltaf og svo virðist sem hún hafi ekki gefið út plötu fyrr en árið 1991 (upplýsingar um annað mætti gjarnan senda Glatkistunni) en þá kom út platan My songs to your heart sem hún gaf út undir nafninu Sally Rósinkranz. Sú plata hafði m.a. að geyma níu íslensk einsönglög (þar af fimm eftir Sigfús Einarsson) en Ólafur Vignir Albertsson lék á píanó undir söng hennar. Það var United stars productions / Hollywood star records sem gaf plötuna út sem og tvær aðrar sem hún sendi frá sér og komu báðar út árið 1994, Forever with love og Sally sem báðar voru unnar undir svipaðri forskrift, blöndu íslenskra og erlendra laga við undirleik Ólafs Vignis Albertssonar. Þá var hún með tvær aðrar plötur í vinnslu en óvíst er hvort þær komu einhverju sinni út.

Sigurlaug Rósinkranz hefur fyrir nokkru lagt sönginn á hilluna en hún býr enn í Bandaríkjunum.

Efni á plötum