Stripshow (1991-97)

Stripshow

Rokksveitin Stripshow naut nokkurra vinsælda á tíunda áratug síðustu aldar og segja má að sveitin hafi verið eins konar undanfari Dimmu sem kom fram á sjónarsviðið á nýrri öld. Stripshow gaf út plötu sem einnig kom út í Asíu.

Stripshow var stofnuð árið 1991 og voru meðlimir sveitarinnar í upphafi þeir bræður Ingólfur Geirdal gítarleikari og Sigurður Geirdal bassaleikari sem í daglegu tali eru kallaðir Ingó og Silli, sá fyrrnefndi hafði þegar þarna var komið sögu skapað sér nokkurt nafn sem töframaður, aðrir stofnmeðlimir voru Bjarki Þór Magnússon trommuleikari og Ingvi Steinar Ólafsson söngvari en lengi vel hélst sveitinni illa á söngvurum.

Stripshow mun hafa leikið sýrurokk í upphafi en með tímanum var tónlist þeirra miklu fremur skilgreind sem klassískt þungarokk eða jafnvel hetjurokk. Allt frá byrjun lögðu þeir félagar jafn mikla áherslu á showið og tónlistina og voru tónleikar sveitarinnar yfirleitt mikið sjónarspil þar sem áhersla var lögð á reyk og ljósashow, jafnvel sápukúlur og villta sviðsframkomu en sagan segir að þeir bræður Ingó og Silli hafi á unglingsárum sínum æft hana sérstaklega, t.a.m. hlaupið yfir sófa og önnur húsgögn með hljóðfæri sín í höndunum.

Strax árið 1992 urðu fyrstu söngvaraskiptin í Stripshow en Sigurjón Skæringsson tók þá við söngnum af Ingva Steinari, sveitin var þarna farin að spila töluvert opinberlega og var um tíma hálfgerður fastagestur á Púlsinum. Sigurjón starfaði ekki lengi með Stripshow og veturinn 1992 til 93 fór ekki mikið fyrir sveitinni, en þegar hún birtist aftur vorið 1993 hafði nýr söngvari, Hallgrímur Oddsson tekið við míkrafóninum. Þá um sumarið kom fyrsta lag sveitarinnar út á plötu en það var á safnplötunni Íslensk tónlist 1993 sem kom út í tengslum við tónlistarhátíð sem haldin var í Þjórsárdalnum fyrstu helgina í júlí, lagið var þó engan veginn í takti við þá tónlist sem heyrðist frá henni síðar. Síðar þetta sama sumar var sveitin meðal nokkurra sem léku á Skagarokki og eitthvað kom sveitin meira fram um það leyti.

Stripshow 1992

Stripshow var nokkuð dugleg að koma fram og skóp sér því nokkurt nafn, henni fylgdi nokkur fastur kjarni aðdáenda og átti showið í kringum tónleika sveitarinnar sjálfsagt nokkurn þátt í því. Svipað var uppi á tengingnum sumarið 1994 og lék sveitin þá t.d. á útihátíð í Húnaveri um verslunarmannahelgina en hún mun einnig hafa farið í stuttan tónleikatúr um landsbyggðina þetta sumar.

Árið 1995 kom enn einn söngvarinn inn í sveitina en það var Guðmundur Aðalsteinsson og þá má segja að sveitin hafi fengið endanlega mynd, sveitin starfaði ekki alveg samfleytt á þessum tíma og svo virðist sem hún hafi jafnvel ekki verið starfandi veturinn 1995-96. Vorið 1996 birtust þeir þó aftur og þá kom í ljós að þeir félagar væru að vinna að upptökum á plötu, sú plata var reyndar unnin fremur hratt og kom svo út um haustið á vegum Spors – hún bar titilinn Late nite cult show og hafði að geyma sextán lög sungin á ensku. Í tilefni af útgáfu plötunnar hélt sveitin útgáfutónleika í Borgarleikhúsinu sem mun hafa verið fullnýtt til hins ítrasta hvað leikhúsmöguleikana snertir, þeir tónleikar voru myndaðir og sýndir síðar á Stöð 2. Platan fékk yfirleitt fremur jákvæða dóma, mjög góða í Degi, þokkalega í DV og ágæta í Morgunblaðinu. Lagið Blind komst inn á vinsældalista og fékk töluverða spilun en söngkonan Andrea Gylfadóttir veitti sveitinni liðveislu í því lagi. Í kjölfarið útgáfu plötunnar lék sveitin nokkuð um haustið og svo fram á nýtt ár 1997 en síðan hvarf hún af sjónarsviðinu, hitaði reyndar í eitt skipti upp fyrir Sálina hans Jóns míns í Sjallanum á Akureyri síðsumars en hvarf síðan alveg af því loknu.

Stripshow árið 1994

Eftir að platan kom út hér heima höfðu þeir félagar unnið að því að koma henni á markað erlendis og þegar árið 1997 komust þeir inn á Asíumarkaðinn þar sem hún var gefin út í Japan á vegum Soundholic records – sú plata var í nokkru frábrugðin íslensku útgáfunni sem hafði komið út ári fyrr, hafði að geyma færri lög og einhver laganna í nýjum útgáfum auk þess sem veglegur bæklingur á japönsku fylgdi henni. Reyndar stóð einnig til að platan kæmi út í Suður-Kóreu en af einhverjum ástæðum hlaut hún þar ekki náð fyrir nefnd sem átti að standa vörð um siðgæði útgefins erlends efnis í landinu, líklega var hún þó gefin út þar tveimur árum síðar.

Um það leyti sem platan var gefin út í Japan komst Ingólfur í kynni við gítarleikarann Michael Bruce sem hafði starfað lengi með hljómsveitinni Alice Cooper (Vince Furnier söngvari sveitarinnar tók síðar upp nafnið Alice Cooper) og þeir bræður hófu að spila nokkuð með honum um Bandaríkin. Bruce kom hingað til lands árið 2001 og hélt hér tónleika þar sem þeir Ingó, Silli og Egill Rafnsson trommuleikari léku með honum. Þeir tónleikar voru hljóðritaðir og gefnir út í nafni Michael Bruce undir titlinum Halo of ice (live in Iceland) árið 2002, í tilefni af þeirri útgáfu voru haldnir útgáfutónleikar hér heima um haustið og léku þeir Stripshow-liðar Ingó, Silli og Bjarki trymbill með honum þá. Ekki var þó um Stripshow tónleika að ræða þar, hins vegar hafði sveitin komið saman um vorið og leikið þá á Gauki á Stöng en Kristófer Jensson söng þá með henni þar sem Guðmundur sem bjó erlendis átti ekki heimangengt. Með þeim tónleikum lokaði Stripshow sögu sinni með formlegum hætti en sveitin hafði í raun aldrei hætt á sínum tíma þótt hún hyrfi af sjónarsviðinu. Tveimur árum síðar birtust þremenningarnir með nýja sveit sem hlaut nafnið Dimma en hún varð töluvert stærra nafn en Stripshow, segja má þó að Stripshow hafi verið undanfari Dimmu og nokkur laga hinnar nýju sveitar höfðu verið samin fyrir Stripshow.

Stripshow um það leyti sem platan kom út

Lög með Stripshow komu út á safnplötum á sínum tíma, áður hefur verið nefnd safnplatan Íslensk tónlist 1993 en einnig má nefna Fire and Ice: Music from Iceland (1998) og Iceland rock favourites (2000). Þess má að lokum geta að Late nite cult show var endurútgefin árið 2006, og reyndar endurunnin að efni og hljóði að einhverju leyti, og því eru til þrjár útgáfur af plötunni.

Efni á plötum