Afmælisbörn 1. desember 2022

Magni Ásgeirsson

Tónlistartengd afmælisbörn fullveldisdagsins eru eftirfarandi:

Bakkgerðingurinn (Guðmundur) Magni Ásgeirsson söngvari Á móti sól er fjörutíu og fjögurra ára gamall á þessum degi, Magni hefur einnig sungið með hljómsveitum eins og Shape, gefið út sólóplötur og sungið í undankeppnum Eurovision svo eitthvað sé nefnt, Magni hlaut sína fimmtán mínútna alþjóðafrægð þegar hann tók þátt í Rock star supernova keppninni á sínum tíma.

Kristján Páll Kristjánsson bassaleikari Of monsters and men er þrjátíu og þriggja ára gamall í dag, eins og flestir vita hefur sú hljómsveit verið önnum kafin síðustu árin við tónleikahald og plötuútgáfu um heim allan og enn er ekki séð fyrir endanum á þeim vinsældum. Kristján Páll hefur einnig verið í hljómsveitinni Skítur.

Sólrún Bragadóttir óperusöngkona fagnar sextíu og þriggja ára afmæli sínu í dag. Sólrún nam söng hér heima og í Bandaríkjunum en hóf óperusöngferil sinn í Þýskalandi og hefur búið og starfað víða um Evrópu síðan, nú síðast á Ítalíu. Hún hefur sent frá sér nokkrar sólóplötur frá árinu 1989 en einnig komið fram á plötum annarra.

Haraldur Reynisson tónlistarmaður og -kennari eða bara Halli Reynis trúbador hefði átt afmæli í dag en hann lést árið 2019, langt fyrir aldur fram. Halli sem var fæddur árið 1966, skildi eftir sig alls níu plötur sem ýmist voru sólóverkefni, samstarf með öðrum eða ferilsafnplötur og á annað hundrað laga en nokkur þeirra nutu töluverðra vinsælda, þá átti hann einnig hljómsveitarferil á sínum yngri árum.

Einnig hefði Eggert Stefánsson óperusöngvari átt afmæli þennan dag en hann fæddist árið 1890. Eggert var tenórsöngvari, hann var einna fyrstur Íslendinga til að nema söng erlendis og um leið einn þeirra fyrstu til að syngja inn á plötur og gefa út hér á landi. Hann lést árið 1962.

Vissir þú að Laddi átti tvær af söluhæstu plötunum fyrir jólin 1985, Einn voða vitlaus og Strumparnir bjóða gleðileg jól