Stúdíó Bimbó [hljóðver / útgáfufyrirtæki] (1978-84)

Lógó Stúdíós Bimbós

Á Akureyri var rekið um nokkurra ára skeið hljóðver og síðar einnig útgáfufyrirtæki undir nafninu Stúdíó Bimbó, á annan tug hljómplatna kom út á vegum fyrirtækisins og fjölmargar plötur voru þar hljóðritaðar.

Akureyringurinn Pálmi Guðmundsson hafði um tíma rekið ferðadiskótek undir nafninu Bimbó og frá árinu 1976 var hann einnig fastráðinn diskótekari í Sjálfstæðishúsinu á Akureyri (Sjallanum) undir sama nafni. Það var svo árið 1978 sem hann hóf að gera tilraunir með hljóðupptökur, smíðaði sér græjur og kom sér hljóðveri í húsnæði að Tryggvabraut 22 í bænum, sem hann kallaði Stúdíó Bimbó – síðar átti Pálmi eftir að flytja stúdíóið að Glerárgötu 20 og enn síðar að Óseyri 6.

Pálmi Bimbó eins og hann var oft kallaður hóf að taka upp tónlist fyrir Akureyringa og nærsveitunga, hljómsveitir og einstaklinga, og var þar að mestu sjálfur að störfum. Síðar komu annars konar verkefni til sögunnar s.s. auglýsingar o.fl. Mörg þessara verkefna voru aðeins demó-upptökur en fjölmargar plötur voru einnig hljóðritaðar í Stúdíó Bimbó og meðal tónlistarmanna og hljómsveita má nefna Hljómsveit Finns Eydal, Jón Hrólfsson og Örvar Kristjánsson harmonikkuleikara, Hallbjörn Hjartarson og Jón Víkingsson (Johnny King) kántrísöngvara, Eglu frá Fáskrúðsfirði, Miðaldamenn, Árný, Hver og Jóhann Konráðsson svo nokkur dæmi séu nefnd.

Pálmi Guðmundsson í Stúdíó Bimbó

Þá gerðist Pálmi einnig plötuútgefandi um skeið, gaf út á annan tug platna undir merkjum Stúdíó Bimbó – þar af ellefu breiðskífur, og árið 1984 var hann líklega annar stærsti plötuútgefandi landsins eftir því sem heimild hermir, og um tíma voru reyndar þrjú útgáfufyrirtæki staðsett á Akureyri, Stúdíó Bimbó, Tónaútgáfan og Mífa tónbönd. Meðal platna sem komu út á vegum Stúdíó Bimbó má nefna Kór Barnaskóla Akureyrar – Kom blíða tíð, Birgir Helgason – Í kvöldró, Eðvarð Vilhjálmsson – Tvöfeldni, Dolli dropi – úr leikriti og Jón Árnason frá Syðri-Á – Kleifaball. Til að halda kostnaði í lágmarki annaðist Pálmi sjálfur að mestu alla vinnu og án allra milliliða, hann tók upp og hljóðblandaði, hannaði plötuumslög og tók ljósmyndir, var sjálfur í samskiptum við prentsmiðjur og plötupressur, og annaðist einnig allar auglýsingar, kynningar og dreifingu á plötum sínum.

Þrátt fyrir allt gekk rekstur Stúdíó Bimbó ekki vel og svo fór að Pálmi seldi hljómsveitinni Skriðjöklum stóran hluta af upptökugræjum sínu og sneri sér að öðrum verkefnum, starfaði þá við fjölmiðlun, við útvarpsstöðina Hljóðbylgjuna á Akureyri en hann hafði einmitt haldið utan um útvarpsstöð kántríhátíðarinnar á Skagaströnd eitt sumarið í nafni Bimbó, og þá gaf hann út tónlistartímaritið Smell um tíma.