Stúdíó Mjöt [hljóðver / útgáfufyrirtæki] (1982-86)

Mjöt – logo

Stúdíó Mjöt var eitt af fjölmörgum hljóðverum sem störfuðu á níunda áratug síðustu aldar en auk þess að hljóðrita tónlist var Mjöt einnig útgáfufyrirtæki um tíma.

Ekki er alveg ljóst hvenær Mjöt var stofnað, heimildir segja ýmist 1981 eða 82 og einnig er eitthvað á reiki hverjir stofnuðu hljóðverið, ljóst er að Magnús Guðmundsson (Þeyr) var þar á ferð en einnig gæti Tryggvi Þór Herbertsson hafa verið með frá upphafi. Líklega var Mjöt stofnað svo ungar nýbylgjusveitir gætu hljóðritað efni sitt á ódýran máta og þannig komu út tvær plötur með hljómsveitinni Þeyr undir útgáfumerkinu Mjöt árið 1982 og 83. Haustið 1983 eru eigendur hljóðversins í dagblaðafréttum sagðir vera þeir Jón Gústafsson, Helgi Sverrisson, Jóhannes Eyfjörð og Kristján Gíslason auk Magnúsar en Tryggvi Þór er þar ekki nefndur á nafn. Þá hafði Mjöt nýlega innréttað hljóðver í kjallaranum að Klapparstíg 28 og af fréttaflutningnum mátti skilja sem svo að fyrirtækið væri nýtt af nálinni.

Tækjakostur hljóðversins mun að einhverju leyti hafa komið úr Grettisgati en fyrst um sinn bauð Mjöt upp á sextán rása upptökutæki, síðar höfðu þeir tuttugu og fjórar rásir til umráða og voru þannig ágætlega settir. Þeir félagar, Jón Gústafsson og Tryggvi Þór unnu líklega mest við hljóðritunina en einnig komu þar við sögu Kjartan Kjartansson, Jón Skuggi Steinþórsson og Sigurður Bjóla, allt þekktir upptökumenn.

Stúdíó Mjöt

Á næstu árum voru fjölmargar hljómsveitir og tónlistarfólk sem lögðu leið sína í Mjöt og hljóðrituðu tónlist sína en hljóðverstímarnir voru mun ódýrari þar en annars staðar og gæðin með miklum ágætum, hér má nefna þekkt nöfn eins og Grafík, Magnús og Jóhann, Rikshaw, Bubbi Morthens Bergþóra Árnadóttir, Skriðjöklar, Bjarni Tryggva og S.h. draumur en einnig minni spámenn eins og Hjörtur Geirsson, Dá, Tic Tac, Fásinna, Firring og Með nöktum svo fáein nöfn séu nefnd. Einnig var Mjöt eitthvað í auglýsingagerð og þess má geta að hljóðverið auglýsti námskeið í hljóðvinnslu en slík námskeið voru þá nýlunda hérlendis.

En Mjöt færði sig einnig út í útgáfumál og gaf líklega út um tug hljómplatna, þeirra á meðal voru plötur með Skriðjöklum, Grafík, Fásinnu og Með nöktum en fyrirtækið annaðist einnig dreifingu á öðrum plötum. Þá stóð Mjöt einnig fyrir einhverju tónleikahaldi með tónlistarfólkinu.

Smám saman er eins og fjarað hafi undan Mjöt, Magnús seldi sinn hlut árið 1986 og líklega starfaði fyrirtækið fram yfir áramótin 1986-87 en hætti þá störfum.