Stúlknakór Melaskóla (1960-75)

Söng- og kórastarf hefur yfirleitt verið í miklum blóma í Melaskóla og lengi vel var nafn Magnúsar Péturssonar söngkennara og tónlistarmanns samofið söngstarfi þar.

Elstu heimildir um stúlknakór innan Melaskóla eru frá árinu 1960 en á því ári kom út tíu laga smáskífa á vegum Tage Ammendrup hjá Íslenzkum tónum sem notuð var við danskennslu og bar titilinn Boðið upp í dans: 1 Barnadansar, á þeirri plötu leikur Tríó Magnúsar Péturssonar og stúlknakór úr Melaskóla annaðist sönginn. Það var þó líklega ekki fyrr en þremur árum síðar sem Magnús hóf að kenna við skólann en að öllum líkindum annaðist hann samt sem áður söngstjórn hjá stúlkunum á þessari plötu.

Á næstu árum átti Stúlknakór Melaskóla (hér er giskað á að hann hafi formlega verið settur á laggirnar 1963) eftir að syngja inn á fáeinar plötur, Bessi Bjarnason syngur hinar góðkunnu barnavísur Stefáns Jónssonar (1969) og Jólin hennar ömmu (1969 einnig), og svo var hinn kunni kór Sólskinskórinn stofnaður upp úr Stúlknakór Melaskóla en sá kór söng inn á plötur einnig undir stjórn Magnúsar, þá má og geta að Melaskólakórinn söng einnig inn á aðra plötu með Bessa Bjarnasyni (1981) en þá var stúlknakórinn reyndar orðinn að blönduðum kór. Felix Bergsson leikari og tónlistarmaður hefur í viðtölum sagt frá því að hann beri nokkra ábyrgð á því að kórinn var gerður að blönduðum kór en hann óskaði eftir því að ganga í kórinn sem var auðsótt mál en eftir það var augljóslega ekki um stúlknakór að ræða, líklega var það um miðjan áttunda áratuginn en frekari upplýsingar má gjarnan senda Glatkistunni.

Efni á plötum