Systir Sara (1972-75)

Systir Sara

Hljómsveitin Systir Sara (og um tíma Sara) starfaði um nokkurra ára skeið á höfuðborgarsvæðinu, lengst af sem húshljómsveit í Silfurtunglinu en sveitin mun einnig hafa leikið nokkuð á Keflavíkurflugvelli hjá bandaríska hernum.

Systir Sara kom fyrst fram sem húshljómsveit í Silfurtunglinu í byrjun júní 1972 en ekki liggur fyrir hversu lengi sveitin hafði þá starfað, um svipað leyti hafði verið sýnd kvikmynd með Clint Eastwood og Shirley MacLaine undir nafninu Systir Sara og asnarnir og líklegt er að þangað hafi sveitin sótt nafn sitt. Sveitin gekk einnig einfaldlega undir nafninu Sara og var oft auglýst undir því nafni, undir lokin eða sumarið 1975 gekk hún einnig undir nafninu Bræður Söru og er líklegt að þar hafi verið um eins konar hliðarsveit hennar að ræða.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um hverjir skipuðu Systur Söru til að byrja með en árið 1973 voru í henni Sigurður Kr. Sigurðsson söngvari, Sigþór Hermannsson gítarleikari, Torfi Ólafsson bassaleikari og Gunnar Jósefsson trommuleikari, snemma árs 1974 voru Sigurður söngvari og Torfi bassaleikari hættir í sveitinni og líklega tóku Sævar Árnason og Anton Kröyer við hlutverkum þeirra, alltént voru þeir á einhverjum tímapunkti í sveitinni.

Sveitin starfaði a.m.k. fram að verslunarmannahelgi sumarið 1975 en ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um hana.