Sigurður Kr. Sigurðsson (1955-2017)

Sigurður Kr. Sigurðsson

Sigurður Kr. Sigurðsson varð landsþekktur þegar hann söng lagið Íslensk kjötsúpa undir lok áttunda áratugar síðustu aldar en hann hafði þá um nokkurra ára skeið sungið með hljómsveitum sem sumar hverjar voru nokkuð þekktar.

Sigurður Kristmann Sigurðsson (f. 22. október 1955) vakti fyrst athygli árið 1973 þegar hann átján ára gamall hóf að syngja með ballhljómsveitinni Droplaugu, og svo skömmu síðar með Systur Söru sem lengi var húshljómsveit í Silfurtunglinu. Hann átti síðan eftir að syngja með fleiri ámóta hljómsveitum, Berlín og síðan Stofnþel (hinni síðari) áður en hann gekk til liðs við Eik sem þá var nokkuð þekkt funksveit en þar tók hann við af Herberti Guðmundssyni sem hafði boðist söngvarastaðan í Pelican, Herbert hafði einnig verið söngvari Stofnþels (hinnar fyrri).

Sigurður söng með Eik um tveggja ára skeið og kom við sögu á smáskífu sveitarinnar sem kom út 1975 og svo á breiðskífunni Speglun (1976) en haustið 1977 gekk hann í hljómsveitina Tívolí þar sem hann leysti Ellen Kristjánsdóttur af hólmi og söng hann með þeirri sveit um tíma.

Það var svo sumarið 1979 sem Sigurður varð landsþekktur þegar hann söng á plötunni Íslensk kjötsúpa ásamt Maríu Helenu Haraldsdóttur en samnefnt lag náði nokkrum vinsældum en hefur e.t.v. orðið mun þekktara í seinni tíð. Sú plata var eins konar konseptplata með söguþræði og var tónlistinni nokkuð líkt við þá sem Meat loaf var þá að gera enda svipaði rödd Sigurðar nokkuð til hans. Í kjölfarið fór hljómsveit af stað í balltúr um landið undir nafninu Íslensk kjötsúpa og gekk söngvarinn eftir það undir nafninu Siggi kjötsúpa.

Ekki fór mikið fyrir Sigurði eftir þetta þótt hann væri kominn á tónlistarkortið, hann söng eitthvað áfram með Tívolí og svo endurreistri Eik en upp úr 1980 hvarf hann alveg af sjónarsviðinu. Söng hans má þó heyra á plötum Torfa Ólafssonar – Kvöldvísu (1980) sem hafði að geyma lög Torfa við ljóð Steins Steinarr, og svo á plötu Tryggva Hübner – 2.0 (2010).

Sigurður lést árið 2017.