Mímósa [1] (1976-82)

Hljómsveitin Mímósa starfaði um árabil í Bolungarvík á síðari hluta áttunda áratugar tuttugustu aldar, hér er giskað á að sveitin hafi starfað á árunum 1976-82 en á einhverjum tímapunkti í upphafi gekk hún undir nafninu Krosstré.

Upphaflega voru í Mímósu þeir Brynjólfur Lárusson söngvari og gítarleikari, Jónmundur Kjartansson trommuleikari (síðar yfirlögregluþjónn við embætti ríkislögreglustjóra), Pálmi Gestsson bassaleikari (síðar leikari) og Hrólfur Vagnsson hljómborðsleikari og söngvari. Þegar Hrólfur forfallaðist tímabundið kom systir hans, Soffía Vagnsdóttir inn í sveitina og starfaði svo með henni áfram þegar Hrólfur kom aftur. Einnig gætu Guðmundur Þórðarson og Kristján Hálfdánarson hafa verið á einhverjum tímapunkti í Mímósu.

Mímósa lék líklega við nokkrar vinsældir fyrir vestan í um tvö ár sem fjölskipuð sveit en síðar sem tríó Jónmundar, Brynjólfs og Hrólfs allt til árs 1982 af því er virðist en þá mun Brynjólfur hafa flutt suður til Reykjavíkur.

Allar frekari upplýsingar, ábendingar og leiðréttingar um þessa sveit óskast sendar Glatkistunni.