Brynjólfur Lárusson & Jónmundur Kjartansson (1989)

Brynjólfur Lárusson og Páll Stefánsson við upptökur á Blöndu

Þeir Brynjólfur Lárusson (1953-91) og Jónmundur Kjartansson (1955-) höfðu starfað í hljómsveitum í Bolungarvík (Mímósa og Krosstré) á sínum yngri árum og fengu í lok níunda áratugar síðustu aldar þá hugmynd að gefa út plötu með frumsömdum lögum.

Þeir leituðu til félaga síns, Hrólfs Vagnssonar sem einnig hafði komið við sögu í hljómsveitunum með þeim, og fengu hann til að taka upp herlegheitin en Hrólfur starfaði og starfar reyndar enn í Þýskalandi.

Platan, sem fékk titilinn Blanda, var því tekin upp í hljóðveri Hrólfs í Hannover, alls tólf lög sem þeir félagar sungu ásamt Páli Stefánssyni. Blanda fékk litla athygli þegar hún kom út haustið 1989 en dómur um plötuna birtist þó Í DV, hann var afar neikvæður.

Tveimur árum síðar fórst Brynjólfur í sjóslysi og fáeinum mánuðum síðar ákváðu ekkja hans, Jónmundur og Hrólfur að afhenda Lionessuklúbbi Njarðvíkur fimm hundruð eintök af plötunni og myndi ágóðinn af sölu hennar renna í þyrlukaupasjóð, til minningar um Brynjólf.

Efni á plötum