Brynjólfur Jóhannesson (1896-1975)

Brynjólfur Jóhannesson

Brynjólfur Jóhannesson telst meðal fremstu leikara hér áður fyrr þótt hvorki væri hann menntaður leikari né starfaði við það eingöngu.

Brynjólfur fæddist 1896 í Reykjavík, lauk verslunarskólanámi í Kaupmannahöfn og gerðist um tíma verslunarmaður á Ísafirði og Akureyri áður hann fluttist aftur til Reykjavíkur en hann starfaði síðan sem bankamaður í rúmlega fjörutíu ár og varð það hans aðal starfsvettvangur. Samhliða þessu lék hann á sviði, fyrst á Ísafirði en síðan hjá Leikfélagi Reykjavíkur, hann lék einnig nokkur hlutverk í Þjóðleikhúsinu en einnig í útvarpsleikritum. Á sextíu ára leikferli mun hann hafa leikið hátt í tvö hundruð sviðshlutverk sem var einstakt á þeim tíma enda var hann ekki í fullu starfi sem leikari.

Brynjólfur vann mikið að félagsmálum leikara og var t.a.m. formaður Félags íslenskra leikara auk þess að vera fulltrúi félagsins í Bandalagi íslenskra listamanna. Þá var hann einnig um tveggja ára skeið forseti Bandalags íslenskra listamanna.

Árið 1966 kom út bókin Karlar eins og ég: æviminningar Brynjólfs Jóhannessonar leikara, en hún var skráð af Ólafi Jónssyni.

Brynjólfur var músíkalskur og ágætur söngmaður og söng t.d. í kórum bæði á Ísafirði og Reykjavík, hann var aukinheldur vinsæll gamanvísnasöngvari og kom oft fram sem slíkur, stundum með skemmtikröftum á borð við Baldur og Konna, Alfreð Andrésson og fleirum á revíuskemmtunum og annars konar samkomum. Tvær plötur komu út með söng hans, annars vegar tveggja laga platan Áramótasyrpan / Domino sem kom út 1952, og hins vegar þriggja laga platan Gamanvísur sem var gefin út 1969. Það var Hljóðfæraverzlun Sigríðar Helgadóttur sem var útgefandi beggja platnanna.

Söng og leik Brynjólfs má heyra á nokkrum útgefnum plötum sem hafa að geyma leikrit og tónlist úr þeim, þar má nefna leikritin Gullna hliðið og Íslandsklukkuna sem Fálkinn gaf út á sínum tíma í viðhafnarútgáfum en einnig á plötum sem innihalda lögin úr Delerium bubonis eftir Jónas og Jón Múla Árnasyni. Þeirra vinsælast er Söngur jólasveinanna sem Brynjólfur söng ásamt Karli Sigurðssyni en það hefur einnig komið út á fjölda safnplatna s.s. Svona var 1952, Lög Jóns Múla Árnasonar, Jólasnjór og Strákarnir okkar. Jafnframt má heyra til Brynjólfs á plötunum Lýðveldishátíð 1944, Alþingishátíðin (sem var gefin út af Fálkanum í tilefni af tuttugu ára afmæli lýðveldisins 1964) og Leikfélag Reykjavíkur 75 ára, sem kom út 1971. Þá er ótalin tólf laga platan Revíuvísur sem kom út á vegum SG-hljómplatna 1978 en á henni er að finna revíuvísur sungnar af Brynjólfi, Nínu Sveinsdóttur, Lárusi Ingólfssyni og Alfreð Andréssyni. Þær upptökur voru frá ýmsum tímum og úr fórum Ríkisútvarpsins.

Brynjólfur Jóhannesson lést vorið 1975 en hann var þá tæplega áttræður.

Efni á plötum