Fáar heimildir er að finna um það sem kallað var Söngfélag Einingarinnar en um var að ræða blandaðan kór ungs fólks (að öllum líkindum) innan bindindisstúkunnar Einingarinnar nr. 14.
Fyrir liggur að Árni Eiríksson verslunarmaður og leikari hélt utan um söngstarfið við upphaf aldar (árið 1900) en ekki er vitað hversu lengi söngfélagið/kórinn var virkt eftir það, líklega var það þó starfandi árin 1902 og 04. Engar upplýsingar er svo að finna um starfsemi félagsins allt til vorsins 1924 en Eining var þó starfandi allan þann tíma enda var hún með fjölmennustu stúkufélögum landsins. Svo virðist sem söngfélagið hafi verið virkt á árunum 1924 til 26 og þá mögulega undir stjórn Theódórs Árnasonar (fiðluleikara) en kórinn hélt árið 1926 tónleika í Góðtemplarahúsinu (við Tjörnina væntanlega), Theódór fluttist út á land árið 1930 en óljóst er hvort hann stjórnaði söngfélaginu þar til.
Ekki liggja því fyrir neinar upplýsingar um Söngfélag Einingarinnar eftir 1926 og er óskað eftir frekari upplýsingum um félagið, jafnframt hvort það hafi hugsanlega gengið undir öðru nafni.