Samfélag Vestur-Íslendinga í Selkirk í Manitoba fylki í Kanada byrjaði að myndast á síðustu áratugum 19. aldar og rétt um aldamótin 1900 bjuggu þar um sex hundruð Íslendingar. Fyrir liggur að virkt söngfélag var þar starfandi meðal Íslendinganna árið 1898 en upplýsingar um það eru afar takmarkaðar. Þrátt fyrir að Selkirk sé í aðeins um tuttugu kílómetra fjarlægð frá Winnipeg var þar sjálfstæð menningarstarfsemi enda voru samgöngur á þeim tíma ekki jafn auðsóttar og í dag og svokallaðar Íslendingasamkomur á tyllidögum voru sjaldnast sameiginlegar. Einnig er vitað til að söngfélag hafi verið starfandi í bænum í kringum 1950 en engar frekari upplýsingar er að finna um það félag heldur, hvorki um stærð, starfstíma, almenna starfsemi eða söngstjóra frekar en félagið sem starfaði um aldamótin á undan. ólíklegt hlýtur t.a.m. að teljast að söngstarfið hafi verið samfellt á þessum fimmtíu árum.
Óskað er eftir frekari upplýsingum um söngfélög í Selkirk.














































